150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[14:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer hv. þingmaður auðvitað yfir víðan völl þegar talað er um þjóðkirkjuna og hin ýmsu atriði sem hægt væri að ræða um þjóðkirkjuna, samstarf ríkis og kirkju og annað slíkt. Það er tvennt sem ég ætla að nefna. Það er einföldun að færa launakostnaðinn, frá því að ríkið greiði prestum, ákveðnum fjölda, yfir í það að kirkjan beri sjálf ábyrgð á því og ráði hvernig því verði haldið til haga. Það er líka einföldun í því að taka sjóði kirkjunnar, sem m.a. voru settir á stofn til að bæta kirkjunni hluta tekjumissis sem kirkjan varð fyrir þegar ríkið tók yfir kirkjueignir og arð af þeim 1907, og leggja þá niður og hvernig við ætlum að halda utan um það sérstaklega og færa til kirkjunnar, enda er það gert í því samkomulagi sem var gert í september og er núna orðið hluti af þessu heildarsamkomulagi og á ekki að koma sérstaklega til greiðslu úr ríkissjóði. Hér er því lagt til að þeir falli niður.

Ég stend með því að þetta sé til einföldunar. Þetta eykur sjálfstæði kirkjunnar en breytir á engan hátt því eftirliti eða sambandi sem ríkið getur haft á fjármunum sínum hjá kirkjunni. Ég veit ekki hvernig því var nákvæmlega háttað varðandi þessa sjóði í t.d. fjárlaganefnd en ég efa að það hafi verið mjög virkt. Þetta er til einföldunar. Þetta eykur sjálfstæði kirkjunnar og er til bóta og síðan eru ýmsar aðrar lagabreytingar, eins og ég kom inn á, til skoðunar. Ég held að þetta sé mikilvægt skref sem eykur sjálfstæði kirkjunnar og hún líkist meira sjálfstæðu trúfélagi. Það er síðan stærri umræða hvernig og hvaða skref við tökum næst til að auka það enn frekar.