150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[14:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er frekar augljóst og auðvelt skref sem hægt er að taka til að gera kirkjuna sambærilega öðrum trúfélögum þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði um að vernda og styðja hina evangelísku lútersku kirkju. Það væri t.d. hægt að hafa eitthvert lágmark eins og að reka biskupsstofu, þá er búið að uppfylla stjórnarskrárskilyrði um að efla og styrkja þau trúarbrögð. Hæstv. ráðherra segir að kirkjujarðasamkomulagið sé til að bæta upp ákveðið tap kirkjunnar frá því að lögin voru sett 1907, en tilgangur laganna 1907 var í rauninni að styrkja laun presta og kirkjuna sem hafði einfaldlega ekki efni á því að reka það sem hún átti að reka. Launin voru lág og frumvarpið var beinlínis gert til þess að hækka laun presta þegar allt kemur til alls. Yfirfærslan á jörðunum sem átti síðan að standa undir launagreiðslunum dugði augljóslega ekki til. Ef hún dugði ekki til áður þá dugði hún ekki til á eftir. Ríkið þurfti að hlaupa undir bagga og greiða mismuninn. Við erum enn þá í þeim vandræðum. Augljósasta skrefið væri að fara svipaða leið og farin var með Bændasamtökunum fyrir nokkrum árum. Þau voru áður á fjárlögum en innheimta núna eigin félagsgjöld. Kirkjan getur gert það líka, nákvæmlega eins og önnur trúfélög, þó að það sé í gegnum sóknargjöldin sem dreifast síðan jafnt. Það má svo sem klippa á þau líka. Það er fullt hægt að gera til þess að einfalda þetta. Ef einföldunin á að vera að ríkið greiði ekki launakostnaðurinn heldur að kirkjan geri það þá er í rauninni miklu einfaldara að ríkið haldi því áfram því að ríkið greiðir hvort eð er laun fjölda starfsmanna ríkisins. Að bæta við öðru launagreiðslufyrirkomulagi er bara að færa ákveðinn hluta inn í annað apparat sem þarf að viðhalda og það er aukinn kostnaður við það, ekki endilega einföldun heldur aukinn kostnaður.