150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[14:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sóknargjöldin eru félagsgjöld sem ekki er verið að taka á eða breyta í þessu frumvarpi. Ég er bara ósammála hv. þingmanni þó að við getum kannski verið sammála um lokamarkmiðið eða eitthvað slíkt. Ég er ekki sammála að það sé rétt að klippa hér á strenginn í sambandi ríkis og kirkju og aðskilja í einum rykk. Þjóðkirkjan hefur gegnt mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar með fjölbreyttri þjónustu og við gerum þetta ekki nema í sátt, eins og var gert með þessu samkomulagi við þjóðkirkjuna, að stíga skref í átt að auknu sjálfstæði hennar. Ég held að það sé alltaf rétta leiðin, enda skipar kirkjan stóran sess í hjarta mjög margra Íslendinga. En það þýðir ekki að hún þurfi að vera partur af ríkinu til eilífðarnóns. En ég held að þetta sé mikilvægt skref og hér er örlítið frumvarp sem fellir úr gildi sjóði og breytir greiðslum varðandi kirkjugarða til að fullnægja því samkomulagi sem gert var í víðtækri sátt í september.