150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég skildi hæstv. ráðherra áðan er aðskilnaður ríkis og kirkju tvímælalaust einhvers staðar í óskilgreindri framtíð en vissulega í framtíðinni. Hvenær er ekki í bókunum ljóst því að við erum núna með þennan viðbótarsamning sem er með endurskoðunarákvæði eftir 15 ár eða eitthvað því um líkt sem gengur gegn lögum um opinber fjármál, til að hafa það algjörlega á hreinu. Það kom vel fram þegar síðustu frumvörp um meira sjálfstæði kirkjunnar voru lögð fram.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um aðskilnað ríkis og kirkju sem er klárlega að fara að gerast, bara spurning hvenær, og sérstaklega í því ljósi að hv. þingmaður er í fjárlaganefnd og vinnur með lög um opinber fjármál þar sem er kveðið á um fimm ára samningstímabil. Ef við myndum klippa á þetta fjárhagslega samband ríkis og kirkju eins og það er núna þyrfum við að sjálfsögðu að klára samninginn, á því er enginn vafi, en hann varir væntanlega í fimm ár en ekki 15 ár miðað við lög um opinber fjármál því að ólögleg samningsákvæði í samningum eru í rauninni ekki í samningnum þegar allt kemur til alls. Mig langar að fá hv. þingmann til að fjalla aðeins um þessa undarlegu viðleitni ríkisstjórnarinnar til að segja annars vegar að það verði aðskilnaður ríkis og kirkju en hins vegar að setja fram 15 ára samning sem stangast á við lög um opinber fjármál með engri vissu um að aðskilnaði ríkis og kirkju verði lokið þegar því 15 ára tímabili lýkur. Það er bara talað um endursamning, eins og að kirkjan ráði hvort hún segi já eða nei við því að ríkið ætli að hætta (Forseti hringir.) að innheimta tekjuskatt fyrir sóknargjöldum eða gera hvað annað sem þarf til að hætta að skipta sér af málefnum kirkjunnar.