150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[15:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við verðum að átta okkur á því að kirkjujarðasamkomulagið hefur ekkert með stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskránni að gera. Þetta er lögvarður samningur, eins og ég nefndi áðan, og þetta samkomulag stendur óhaggað og er staðfest í þeim viðbótarsamningi sem var samþykktur í september á síðastliðnu ári milli ríkis og kirkju og nú er verið að breyta lögum sem er nauðsynlegt til að hann öðlist fullt gildi. Ég þekki það, og hv. þingmaður hefur líka komið inn á þetta í fjárlaganefnd, að samkvæmt þessari skrá sem tekin var saman og sé miðað við verðgildið þá sé búið að greiða þetta að fullu. Ég held að þetta sé bara engan veginn eðlilegur samanburður, hv. þingmaður. Ég þekki ekki verklagið í ráðuneytinu hvað það varðar og þar sem hv. þingmaður hefur spurst fyrir um hvað þetta varðar, en kjarni málsins er að þarna voru lagðar til eignir kirkjunnar sem í raun og veru eru það verðmætar að erfitt er að slá einhverja tölu á það. Ef við nefnum sem dæmi, hvert er verðgildi Þingvalla? Hvert er verðgildi t.d. nánast alls lands í Garðabæ sem öll byggðin stendur á? Þetta var allt í eigu kirkjunnar og gríðarleg verðmæti til að mynda á Akranesi og í Borgarnesi og á fleiri stöðum. Þetta eru eðlilegar spurningar hjá hv. þingmanni en ég held að við þeim liggi líka eðlileg svör. Við megum heldur ekki gleyma því, svo ég komi því að í lokin, að þjóðkirkjan veitir gríðarlega mikla þjónustu um allt land sem þjóðin nýtur góðs af og hefur sérstaklega sýnt sig að er öflug núna þegar við höfum átt við þennan veirufaraldur. Sú mikla og góða þjónusta sem þjóðkirkjan hefur veitt landsmönnum heima í stofu er ómetanleg.