150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[15:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta eru tvö löng frumvörp sem breyta fjölmörgum lögum. Þar sem þetta er svo víðfeðmt og breytir litlum atriðum, eins og kemur fram í frumvarpinu, þessi grein í þessum lögum orðast svona en ekki hinsegin og er þar af leiðandi svo ógeðslega leiðinleg vinna þá skapast ákveðinn freistnivandi fyrir ráðherra sem leggur slíkt fram. Það er auðvelt að lauma hlutum inn, við skulum bara orða það þannig. Nú er ég ekki að segja að hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson sé að reyna að gera það, að sjálfsögðu ekki, ég hef ekki hugmynd um það. Það eina sem ég veit er að freistnivandinn er til staðar. Þess vegna er það hlutverk mitt sem sit í atvinnuveganefnd, sem mun vinna málið áfram, að gera mitt besta til hafa yfirsýn yfir málið, sjá hverju er verið að breyta og í hverju það felst. Er verið að færa vald? Ég er mjög hrifinn af svona lagahreinsun, að hreinsa út lög sem eru orðin tilgangslaus, ég er mjög hrifinn af einföldun regluverks, að það sé skýrara og skilvirkara og árangursríkara, það nái tilgangi sínum. Þannig að ég er mjög hrifinn af megintilgangi svona vinnu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki aðstoða mig í þeirri vinnu að sinna þessu vel í atvinnuveganefnd með því að fá frá ráðuneytinu þau vinnuskjöl sem til eru með „track changes“, með leyfi forseta, breytingaskjöl, þannig að við í nefndinni getum á auðveldari hátt glöggvað okkur á því hverju sé verið að breyta. Þegar ég byrja að fara í gegnum þetta og sé, með leyfi forseta: „Getur ráðherra sett almenn og svæðisbundin fyrirmæli í reglugerð,“ þá spyr ég hvaða auknu völd það færir ráðherra. (Forseti hringir.) Hér er verið að skipta Fiskistofu út fyrir Hafrannsóknastofnun, eftirlitsaðila fyrir þann sem er rannsóknaraðili. (Forseti hringir.) Hvað þýðir þetta? Hvers vegna?