150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég fagna því ef hér kemur fram nýtt frumvarp sem tekur á því sem ég var að tala um. Akkúrat í þeirri stöðu sem við erum í núna, þar sem við erum að fá atvinnuleysi upp á tuga þúsunda manna, hefur mér fundist skorta framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni, þ.e. að fara í verkefni sem við vitum að eru brýn, mannfrek og virðisaukandi. Þar kemur landeldið mjög sterkt inn. Þess vegna hefði ég haldið að það væri eitt brýnasta verkefnið núna hjá hæstv. ráðherra og hans fólki. Ef það er svo að fyrirtæki sé búið að bíða lengur en 18 mánuði eftir einfaldri breytingu á rekstri sínum, fyrirtæki sem eins og í því tilfelli sem ég minntist á tvöfaldar framleiðslugetu sína og virðisaukinn verður þá líklega 1 milljarður á ári, ef ég man þetta rétt — við höfum ekki efni á því að draga fyrirtæki sem er í slíkri stöðu á svörum af því að einhverjir tappar séu í kerfinu.

Það er ekki viðunandi svar, herra forseti. Þess vegna hlýt ég að hvetja hæstv. ráðherra til að sjá til þess að þegar verði farið með stíflueyði á þetta kerfi.