150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýninguna um að gera betur í afgreiðslu leyfa sem bíða, sérstaklega varðandi landeldi. Ég er hins vegar ekki alveg sammála hv. þingmanni með að það skorti sýn á þá þætti að það þurfi að ýta undir verkefni til að reyna að vinna bug á atvinnuleysi. Ég nefni út frá mínum málefnasviðum að við fengum auknar fjárheimildir til að flýta fyrir afgreiðslu fiskeldisleyfa. Á því sviði er þegar hafin ákveðin vinna. Með sama hætti höfum við fengið aukna fjármuni til að ýta undir samninga við garðyrkjubændur og síðan með stofnun Matvælasjóðs sem á að geta ýtt undir störf á þessum vettvangi. Að því leytinu til vil ég meina að við höfum ágætissýn á sviði ríkisstjórnarinnar til þess mikilvægis (Forseti hringir.) sem liggur í því að skapa fleiri störf.

Ég þakka brýninguna enn og aftur og hlakka til að vinna að því með hv. þingmanni að losa um tappana í kerfinu.