150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og yndislegheitin. Það er orðið dálítið umhugsunarvert ef Píratarnir eru farnir að leggja fram hvert málið á fætur öðru. Það er fagnaðarefni ef við deilum sýn til hluta og erum sammála um ákveðnar áherslur sem verið er að vinna í þinginu. Það gerist mun oftar en er almennt uppi á borðum, held ég.

Í þessu máli á sér stað ákveðin lagahreinsun. Hið sama var uppi á sviði reglugerða. Þar afnámum við 1.242 reglugerðir, sumar alveg úr sér gengnar, aðrar að vísu til einföldunar o.s.frv. Af nógu er að taka. Ég vil bara leyfa mér að hrósa Pírötum fyrir það frumvarp sem þeir lögðu fram á sínum tíma. Það var góð hugvekja og ég held að það sé verið að vinna ýmislegt í þeim efnum til að draga úr réttaróvissu eða einhverju því um líku með því að vera með hangandi í lagasafninu ýmislegt sem er úr sér gengið og segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er bara fínt.

Þetta er í huga hv. þingmanns yndislegur og góður dagur og ég óska honum þess að þeir megi bara verða fleiri í hans lífi.