150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Mig langar til að halda hér aðeins áfram þó að hæstv. ráðherra hafi lagt gott til þegar ég var í andsvörum við hann áðan varðandi einföldun á regluverki. Þegar mér hefur verið mikið niðri fyrir í ræðustól Alþingis hef ég skammast mikið út í Matvælastofnun og svo mjög að í einni ræðunni ruglaði ég henni saman við Matís og bið ég Matís velvirðingar á því. Ég ætlaði alls ekki að hnotabítast út í þá stofnun heldur lá gremja mín öll í átt að Matvælastofnun.

Ég fagna ef það er rétt sem ráðherra segir, og ég efast ekkert um það, að áfram verði haldið við að einfalda reglur, og þá ætla ég líka að fara aftur í sama farið með frumkvöðla sem eru með smáatvinnurekstur og sem gert er að greiða eins og um milljarðarekstur sé að ræða. Nú vill svo til að það er nýbúið að stofna Samtök smáframleiðenda matvæla og ég held að margir af þessum framleiðendum, sérstaklega þeim sem búa til sveita, geti fallið undir það sem kallað hefur verið Beint frá býli. Rekstur sem fellur undir Beint frá býli á í sjálfu sér að heyra undir heilbrigðisfulltrúa enda sveitarfélagarekin starfsemi. Mér hefur stundum fundist undanfarin ár skörun á verkefnum milli Matvælastofnunar og heilbrigðisnefndanna á hverjum stað. Ég veit að þeir sem hafa kvartað hvað mest yfir þessu, hvort sem þeir eru í stórum eða smáum rekstri, hafa fundið að því að fá heimsóknir frá kannski þremur aðilum eða fjórum í röð. Ég man sérstaklega eftir því að ég átti tal við ágætan rekstraraðila á Austurlandi sem fékk þrjá til fjóra eftirlitsaðila til sín á dag og þeir rukkuðu allir fyrir akstur frá Egilsstöðum, frá flugvellinum þangað sem þessi ágæti aðili var með atvinnurekstur. Ég held að við hljótum að geta komið í veg fyrir þetta.

Miðað við ástandið sem við erum í kemur að því að við þurfum að taka til í ríkisrekstri. Við þurfum að aðlaga hann þeim aðstæðum sem við búum við. Þá kemur aftur þetta sem ég var að tala um áðan, við höfum ekki efni á því, sérstaklega ekki núna, að vera með stofnanir og eftirlitsaðila þar sem verkefnin skarast og þar sem tvíverknaður er. Við höfum ekki efni á því. Þar fyrir utan hefur þessi sami tvíverknaður kannski dregið úr því að viðkomandi aðilar komist í framkvæmdirnar sínar, geti komið á sínum rekstri. Ég ætla þess vegna enn að minnast á dæmið sem ég rakti áðan, að koma á vettvang suður í Grindavík þar sem er fyrirtæki sem stundar bleikjueldi á mjög vistvænan hátt, 7 km frá sjónum, en er samt sett út með það að vera með viðbrögð við því að ekki verði um slysasleppingu að ræða. Ég þori að veðja, eftir að hafa verið þarna og séð hvernig brimar við hraunströndina sem er úfin, að bleikja sem hugsanlega gæti sloppið þarna fyrir borð lifir ekki nema eina mínútu í briminu sem hún fer út í ef hún sleppur til sjávar. Ég tek á mig sök í þessu máli vegna þess að ef ég man rétt greiddi ég atkvæði með þessu frumvarpi í fyrra og bara játa þau mistök mín vegna þess að þetta atriði fór fram hjá mér og örugglega fleirum. Þetta eigum við þá líka að leiðrétta. Eins og ég sagði áðan tel ég, og hef sett það fram bæði í ræðu og riti, að einmitt núna sé einn stærsti möguleiki okkar til framþróunar, að til að auka störf, til að auka framleiðni og framleiðslu og til að auka framleiðslu sem gæti verið bæði gjaldeyrissparandi og gjaldeyrisaflandi, eigum við að taka miklu meira land undir landeldi og við eigum að hætta að láta t.d. vatn eins og frá Hellisheiðarvirkjun renna niður Ölfusið og kólna smátt og smátt á leiðinni og koma ekki nálægt því. Þetta er algjör sóun, það er móðgun við náttúruna að vera búin að brjóta land og nýta svo ekki nema 15% af aflinu sem býr í framkvæmdinni. Við höfum heldur ekki efni á því að stunda slíka sóun. Þarna eru möguleikarnir.

Ég var að tala um heitt vatn og ég veit að hæstv. ráðherra er búinn að vera með í gangi einhverjar aðgerðir gagnvart garðyrkju, stóriðjunni okkar, en betur má ef duga skal. Tillaga mín er einföld, seljum garðyrkjubændum, þessari stóriðju, rafmagn á sama verði og annarri stóriðju. Með því aukum við möguleikann á því að hægt sé að framleiða enn fleiri tegundir, bæði til innanlandsnotkunar og einnig til útflutnings.

Ég ætla enn á ný að taka þetta eina dæmi sem ég tók í ræðu hér um daginn. Grammið af vanillu er núna á heimsmarkaði jafn dýrt og gramm af silfri. Það er hægt að rækta hana undir gleri. Á sínum tíma var sagt við mig að ekki væri hægt að rækta vanillu undir gleri en Hollendingar eru byrjaðir á því og, nota bene, af ótrúlegum ástæðum sem ég skil ekki er kílóvattstund til garðyrkju undir gleri enn þá ódýrari í Hollandi en á Íslandi. Ég verð að spyrja: Af hverju? Ég veit að Rarik er söluaðili til garðyrkjubænda en ég viðurkenni að sjálfum hefur mér fundist snúið að aðilar sem reka fyrirtæki í 30–70 km loftlínu frá stærstu virkjunum á Íslandi skuli borga rafmagn sem er sambærilegt við það þegar einhver karlmaður er að strauja skyrtuna sína á Selfossi. Gróðurhúsin í t.d. Reykholti og þar í kring nota jafn mikið rafmagn og Árborg öll. Síðast þegar ég vissi voru 600 manns að vinna við garðyrkju á Suðurlandi. Þetta er stóriðja. Það liggur fyrir að hér er hægt að framleiða allar tegundir, bæði þær sem við neytum sjálf og til útflutnings. Ef við ætlum að flytja út minni ég enn og aftur á vanilluna, ef við ætlum að flytja út eigum við að velja þær tegundir sem eru dýrastar per kíló til að jafna útflutningskostnaðinn sem við erum að berjast við, en mest af öllu erum við náttúrlega að spara þau kolefnisspor sem fylgja því að flytja grænmeti frá Kanaríeyjum til Íslands að staðaldri eða vestan frá Ameríku.

Ég er aðeins kominn út um víðan völl en ég varð að koma þessu frá mér líka vegna þess að grunnurinn að þessu öllu er eftirlitið og leyfisveitingarnar. Þess vegna þarf það að vera eins skýrt og skilvirkt og hægt er. Það er önugt, herra forseti, ef við erum að leggja stein í götu frumkvöðla sem eru að hasla sér völl í dreifðum byggðum úti um land, auðga byggðirnar, draga til sín ferðamenn, þetta árið af íslenskum uppruna en hin árin af hvoru tveggja, að við skulum með reglugerðarsetningum standa í vegi fyrir því að þessi þróun eigi sér stað þegar byggðirnar eiga undir högg að sækja.

Þetta eigum við ekki að gera, við eigum ekki að láta svo lítið að standa í þessu.

Ef til stendur, eins og ráðherra segir og ég efast ekki um það, að skoða þessi mál enn betur, þ.e. eftirlitið, verð ég einnig að leggja til að það verði sérstaklega skoðað hvar t.d. starfsemi Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits skarast. Er tvíverknaður uppi? Þetta þarf að kanna og þetta þarf að — (Sjútvrh.: Við erum að skoða það.) Ráðherra segir úr sal að þetta sé til athugunar og það gleður mig.

Að endingu verð ég eiginlega að staðfesta íhaldssemi mína. Ég var ekki búinn að gaumgæfa hitt frumvarpið sem er líka undir í þessari umræðu. Athygli mín var vakin á 11. og 12. gr. þess frumvarps. Með leyfi forseta er fyrsta setningin í greinargerð um 11. gr. eftirfarandi:

„Lagt er til að látið verði af skyldu til eyrnamörkunar.“

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að þarna vaknaði í mér íhaldsmaðurinn vegna þess að þetta er aldagömul hefð á Íslandi, hluti af menningu, og einu aðilarnir sem voru með hálftaf í gamla daga voru sauðaþjófar, herra forseti. Hér er talað um plastmerki og þau eru góð og gild en þá segi ég aftur: Það er lítill vandi að koma plastmerki í lóg, t.d. með því að taka hálftaf eða losa þau úr með öðrum hætti. Þar með er gripurinn orðinn marklaus. Ég vara við því og mun berjast gegn því að þetta verði gert, bæði af menningarlegum ástæðum og því að mér þykir plastmerkingin eins og hún er ekki nógu trygg vegna þess að margt getur komið fyrir sauðfé á afrétti og í úthaga. Þar eru náttúrlega girðingar o.s.frv. sem þessi dýr geta þvælst í og þess vegna vara ég við þessu. Ég vara líka við því að heimilt verði að fela öðrum en Bændasamtökum Íslands að hafa umsjón með samræmingu og gerð nýrra markaskráa, eins og hér segir, og upptöku nýrra marka vegna þess að það kemur líka fram í greinargerð um 12. gr. að menn eru ekki búnir að finna þann aðila sem á að taka við. Menn segja að það komi til greina að þessi eða hinn geri það en það er ekki búið að finna þann aðila. Okkur hættir stundum til að taka ákvarðanir hér, þar sem við viljum breyta einhverju, og okkur liggur svo á að breyta því að við rífum eitthvað úr sambandi án þess að vera búin að finna viðkomandi starfsemi stað annars staðar. Við þurfum ekki að gera þetta, það liggur ekki á, og ég held að þetta frumvarp væri betra ef þetta væri ekki þarna inni.

Ég tek líka eftir því í því frumvarpi að Matvælastofnun eru falin gríðarlega mörg ný verkefni sem eru færð þangað héðan og þaðan, allt saman mjög gott, en þá ætla ég enn að minna á hinn langa afgreiðslutíma Matvælastofnunar sem hefur komið upp aftur og aftur. Þá held ég að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hljóti að tryggja að Matvælastofnun ráði við það að afgreiða þessi nýju verkefni þegar hún ræður ekki við það í dag að afgreiða á sómasamlegum tíma þau verkefni sem henni eru falin.

Ég ætla bara að taka upp í mig núna, herra forseti, því að það er ekki eðlilegt að verið sé að bíða eftir rekstrarleyfum mánuðum og misserum saman í starfsemi sem gæti verið að mala okkur gull nú þegar. Þetta er ólíðandi og ég segi aftur að við höfum ekki efni á þessu, herra forseti, síst af öllu við núverandi ástand. Enn á ný brýni ég hæstv. ráðherra og þakka honum fyrir að vera við alla umræðuna. Ég brýni hann enn um að leitast verði við það að leyfisumsóknir og fleira sem varðar Matvælastofnun verði afgreiddar á ásættanlegum tíma en ekki að mánuðir, misseri eða ár líði. Það hlýtur að vera meira en — ég má ekki segja frústrerandi, herra forseti, af því að þingmálið er íslenska — ergjandi fyrir fólk sem hefur staðið sig vel í rekstri og er með allt klárt til að tvöfalda þann rekstur og auka verðmæti útflutnings að sitja við það misserum saman að bíða eftir því að einhver stofnun hósti í gegn þeim leyfisveitingum sem hún á að gera. Eins og ég segi er ekki verið að brjóta nýtt land, það er verið að auka við starfsemi sem þegar er hafin og búin að vera í góðum rekstri árum saman. Þetta skulum við endilega laga strax.