150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19.

733. mál
[16:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég stóðst ekki mátið að koma aðeins upp í pontu, ekki endilega til að þýfga hv. þingmann um einhver svör, enda eru andsvör alls ekki alltaf hugsuð til þess, heldur til að lýsa því yfir um leið og ég segi að mér finnst þessi tillaga allrar athygli verð og sjálfsagt að setjast yfir, skoða og meta að draga inn í umræðuna sem mér finnst verða fyllri fyrir vikið þær fjölmörgu aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í með hagsmuni námsmanna í huga. Það kemur inn á hluta af því sem hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni, að þegar er búið að lækka vexti námslána úr 1% niður í 0,4%, endurgreiðsluhlutfall lána hefur verið lækkað til samræmis sem lækkar afborganir. Afslátturinn vegna uppgreiðslu námslána er allt að 15% framvegis og ábyrgðarmenn á lánum í skilum sem tekin voru fyrir 2009 falla brott og jafnræði er þar með tryggt.

Þetta eru aðgerðir upp á um 14 milljarða kr. Þá hefur verið farið í sérstakt átak til að huga akkúrat að þeirri stöðu sem hv. þingmaður kom vel inn á í upphafi máls síns og liggur undir varðandi tillöguna, þ.e. er lýtur að sumrinu og möguleikum til starfa þar sem ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um að allt að 2,2 milljörðum kr. verði varið til að skapa 3.000 tímabundin störf. Ég vek svo athygli á því að hugsunin er líka að fá sveitarfélögin með í lið þar þannig að enn fleiri störf verði til fyrir námsmenn. Svo hafa einnig verið veittar 300 millj. kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla og 800 millj. kr. til bjóða sumarönn bæði í framhalds- og háskólum.

Forseti. Ég vildi bara nefna þetta til að draga það fram að ýmsar aðgerðir hafa þegar verið boðaðar og lýsa því svo yfir, eins og ég sagði í upphafi, (Forseti hringir.) að tillagan er allrar athygli verð og ráð að setjast yfir hana.