150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

rekstrarleyfi í fiskeldi.

[15:38]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á rekstrarleyfi í fiskeldi og flýtingu á leyfisveitingum þar. Nýlega ákvað hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera átak til að stytta málsmeðferðartíma í útgáfu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi en nokkuð hefur borið á því að málsmeðferðartími í útgáfu leyfa til fiskeldis hafi dregist úr hófi. Þetta er ein leið stjórnvalda nú á tímum Covid-19 til að styrkja atvinnulífið og koma framkvæmdum af stað og ekki síst til að styrkja stjórnsýsluna í þessum efnum. Þegar kemur að leyfum í fiskeldismálum er oft tiltekið að bíða þurfi lengi eftir afgreiðslu á málum hjá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Það að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis gæti á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningar á fleira fólki til starfa og það er það sem við þurfum á þessum tímum.

Til að geta starfrækt fiskeldi þarf álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum að liggja fyrir og auk rekstrarleyfis frá MAST þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvort hann hafi skoðað tímalengd leyfisveitinga í þeim stofnunum sem heyra undir hann, þ.e. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, með tilliti til þeirra aðgerða sem stjórnvöld vilja fara í. Til hvaða ráðstafanir má grípa til svo lögbundnar tímaviðmiðanir séu virtar?