150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

rekstrarleyfi í fiskeldi.

[15:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir að það má ekki vera að flýta leyfisveitingum á kostnað umhverfisþátta, alls ekki. En við þurfum svo að koma þessu í vinnslu og þá spyr ég hvort jafnvel væri ástæða til að samþætta betur vinnslu starfs- og rekstrarleyfa milli Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar þannig að minni líkur séu á tvíverknaði. Er það einhvers staðar að finna í þessum þáttum? Þannig mætti náttúrlega nýta þá þekkingu úr þeim stofnunum. Það gæti mögulega hraðað ferlinu. Eru einhver áform um að auka mannafla í þessum stofnunum? En það er alveg skýrt að við viljum ekki ganga á rétt eins né neins heldur bara hraða ferlinu til þess að við getum komið þessari vinnu af stað. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvað varðar að fá aukin útflutningsverðmæti og koma fleira fólki að til að vinna við þetta.