150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[15:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Frumvarpið er annars vegar lagt fram til að tryggja lagaramma utan um samkomulag það sem Ísland, Noregur og Evrópusambandið hafa gert með sér um sameiginlegt markmið varðandi skuldbindingar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 innan ramma Parísarsamkomulagsins. Samkomulagið felur í sér innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/841 um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt og reglugerðar (ESB) 2018/842 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna á tímabilinu 2021–2030 samkvæmt skuldbindingum í Parísarsamningnum.

Hins vegar er frumvarpinu ætlað að innleiða nauðsynlegar breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, þar með talið innleiðingu á reglum um vöktun og skýrslugjöf samkvæmt CORSIA-kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Ég ætla að fara nánar í það hér á eftir.

Eins og áður sagði felur samkomulagið milli Íslands, Noregs og Evrópusambandsins í sér innleiðingu tveggja gerða ESB sem eru lykilgerðir svo markmiðum til ársins 2030 verði náð. Annars vegar er um að ræða reglugerð (ESB) 2018/842 sem tekur á losun frá flokkum orku, iðnaðarferla, efna-/vörunotkunar, landbúnaðar og úrgangs. Samkvæmt reiknireglum ESB fékk Ísland á sig kröfu um 29% samdrátt í losun í fyrrgreindum flokkum. Heildarmarkmiðið í Evrópusambandinu, hjá Noregi og Íslandi er eins og margur veit 40%.

Hins vegar er um að ræða reglugerð (ESB) 2018/841 um losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt. Samkvæmt samkomulagi við ESB skal flokkur landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar ekki leiða af sér nettólosun gróðurhúsalofttegunda.

Ég vil taka fram að 29% samdráttur í losun er ekki það markmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér til ársins 2030 heldur er markmið íslenskra stjórnvalda að ná að lágmarki 40% samdrætti í losun frá þeim geirum sem nefndir eru hér að framan á tímabilinu 2021–2030. Í því felst metnaður en ekki síður fyrirhyggja því að nú þegar er þrýst á um að ríki setji sér metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Að mínu mati er þetta algjörlega nauðsynlegt.

Með frumvarpi þessu eru jafnframt lagðar til breytingar á þeim köflum laganna sem fjalla um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, hið svokallaða ETS-kerfi. Breytingarnar fela í sér innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/410 sem breytir reglum viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir á fjórða tímabili þess sem hefst 2021 og við Íslendingar erum nú þegar aðilar að.

ETS-kerfið er lykiltæki til að ná markmiðum Parísarsamningsins á árinu 2030 en sett hafa verið fram markmið um að heildarsamdráttur í losun innan kerfisins verði 43% í þeim geirum sem falla undir það, miðað við losun ársins 2005. Breytingar sem eru gerðar á ETS-kerfinu á fjórða tímabili þess eiga að stuðla að því að þetta markmið náist.

Um 11.000 fyrirtæki í Evrópu heyra undir kerfið. Hér á landi taka sjö fyrirtæki þátt í viðskiptakerfinu og fjórir flugrekendur. Öll losun stóriðju á Íslandi fellur undir ETS-kerfið og tekur reglugerðin því til um 40% losunar á Íslandi. Losunin sem fellur undir ETS-kerfið er ekki á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda heldur þeirra fyrirtækja sem falla undir viðskiptakerfið.

Helstu breytingar í uppfærðri tilskipun um ETS-kerfið fyrir fjórða tímabilið eru eftirfarandi:

Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnum hluta losunarheimilda verði úthlutað án endurgjalds. Þetta verður gert þrátt fyrir að uppboð á losunarheimildum eigi að vera almenna reglan og úthlutuðum heimildum mun fækka árlega um 2,2% í stað 1,74%. Í heild er gert ráð fyrir að 6 milljörðum heimilda verði úthlutað án endurgjalds á tímabilinu 2021–2030.

Uppfæra þarf skrá yfir þær starfsstöðvar í viðskiptakerfinu sem eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun. Skráin verður uppfærð á fimm ára fresti í stað tíu ára frests áður.

Á tímabilinu verður úthlutað tvisvar í stað einu sinni. Það verður gert til að endurspegla betur raunverulega framleiðni rekstraraðila sem getur tekið miklum breytingum á tíu ára tímabili.

Svokölluð árangursviðmið sem eru 54 talsins verða endurskoðuð á hvoru úthlutunartímabili. Þetta verður gert svo árangursviðmið endurspegli betur framþróun í tækni.

Á fjórða tímabili ETS-kerfisins verður stofnaður nýr evrópskur sjóður um nýsköpun. Sjóðnum er ætlað að styrkja stór verkefni, að lágmarki 7,5 milljóna evra, sem varða orkufrekan iðnað, endurnýjanlega orku, orkugeymslu og föngun, bindingu og notkun koltvísýrings. Verkefni skulu hafa það meginmarkmið að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Bæði fyrirtæki og opinberir aðilar munu geta sótt í sjóðinn. Í frumvarpinu er að finna ákvæði um sjóðinn sem gerir kleift að innleiða hér á landi reglugerð ESB um starfsemi hans.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um skráningarkerfið en ákvæði um það taka þó nokkrum breytingum á fjórða tímabili ETS-kerfisins.

Skráningarkerfið er umfangsmikill rafrænn gagnagrunnur þar sem skráðar eru upplýsingar um stöðu og hreyfingar losunarheimilda ríkja og einkaaðila.

Á tímabilinu 2021–2030 verður svokallaðri losunarúthlutun úthlutað til aðildarríkjanna samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/842 um bindandi árlegan samdrátt. Innleiðing reglugerðarinnar er einmitt hluti af samkomulagi Íslands og Noregs við ESB, samanber það sem fram kom hér að framan. Áskilið er að stofnaður verði reglufylgnireikningur í skráningarkerfinu til þess að geyma upplýsingar um losunarúthlutun hvers ríkis.

Að síðustu eru lagðar til breytingar á lögunum sem eru tilkomnar vegna upphafs hins svokallaða CORSIA-kerfis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Kerfið er hnattrænt og byggir á sambærilegri hugmyndafræði og ETS-kerfið og er því ætlað að draga úr losun koldíoxíðs frá flugumferð og styðja þannig við markmið Parísarsamningsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Nauðsynlegt er að innleiða skyldurnar í lög svo skýrt verði kveðið á um skyldu flugrekenda samkvæmt hnattrænu kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar til að vakta, gefa skýrslu og fá vottun samkvæmt gildissviði kerfis stofnunarinnar.

Á Íslandi tekur kerfið til vöktunar íslenskra flugrekenda í alþjóðaflugi. Vöktun samkvæmt kerfinu miðast við ársbyrjun 2019. Í frumvarpinu er einnig gerð tillaga um útvíkkun gildissviðs laganna sem nú einskorðast við gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir en vöktun samkvæmt CORSIA-kerfinu felur í sér vöktun losunar frá öllu alþjóðaflugi.

Þrátt fyrir CORSIA er áfram gert ráð fyrir að ETS-kerfið verði starfrækt á EES-svæðinu. Reglur um CORSIA verða því innleiddar sem viðbót við ETS-kerfið.

Virðulegi forseti. Rétt er halda til haga að reglulegt samráð hefur verið við Alþingi vegna samkomulagsins við Evrópusambandið og Noreg um sameiginlegt losunarmarkmið samkvæmt Parísarsamningnum til ársins 2030. Drög að samkomulaginu voru kynnt á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar og umhverfis- og samgöngunefndar 30. nóvember 2018. Gerðirnar voru auk þess kynntar fyrir umhverfis- og samgöngunefnd 26. febrúar 2019 og sendar utanríkismálanefnd til skoðunar þar sem þær kalla á lagabreytingar. Þann 5. mars 2020 samþykkti Alþingi tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 sem fjallar um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins við EES-samninginn vegna sameiginlegra efnda samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og tildrög þess að það er lagt fram nú. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.