150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna fyrir þessu máli. Það er óþarfi að fara mjög djúpt yfir það af hverju þetta mál er hér komið inn, það hefur verið gert ágætlega í ræðum og í andsvörum. Mig langar kannski að byrja þessa stuttu ræðu mína á að nefna að ég var því miður fjarverandi þegar þingsályktunartillagan var afgreidd úr utanríkismálanefnd og kom hingað til umræðu en ræða formanns utanríkismálanefndar í þingsal var hreint með ágætum og varpaði ágætlega mynd á þetta mál allt í heild. Hér hefur verið velt upp í fyrirspurnum vangaveltum um hver sé grunnurinn að þessu máli, hvort menn hafi gert mistök o.s.frv. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem má læra helling af, hvernig það kemur til okkar. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það eru ekki mistök að ætla sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á þeim forsendum voru held ég ekki mistök að taka þátt í Parísarsamkomulaginu en það má hins vegar velta því fyrir sér hvort það voru mistök að ætla sér að fara í samstarf með Evrópusambandinu og Noregi og fleirum til að ná þessum markmiðum eða hvort Ísland átti að reyna að ná þeim eitt og sér. Það er alveg hægt að velta því upp. Sá er hér stendur var utanríkisráðherra á þeim tíma og ber að sjálfsögðu ákveðna ábyrgð á því en á þeim tíma var það mat manna og ráðgjöf að fara ætti þessa leið. Ég er ekki endilega viss um að það hafi verið rétt, en það er okkar sem berum ábyrgð að sitja uppi með það. Það er eins og það er.

Þetta eru mikil kerfi, þessi losunarkerfi sem hér er rætt um, og flókin að mörgu leyti, kosta vitanlega mikla fjármuni. Utanumhaldið allt kostar að sjálfsögðu mikið líka. Það er hins vegar óhætt að velta því upp í tengslum við frumvarpið eins og það lítur út hvort það sé til þess að auka kostnað fyrirtækja og atvinnulífsins, auka flækjustig og auka útgjöld ríkissjóðs þegar upp er staðið.

Mig langar líka aðeins að nefna hér í ræðu minni að í þessu máli á að framselja mikið vald, bæði til ráðherra og stofnana. Það á að setja mikið af reglugerðum og veita stofnunum og ráðherra reyndar líka, ég kem að því hér á eftir, töluvert mikil völd sem maður sá kannski ekki alveg fyrir þegar þetta mál var afgreitt úr utanríkismálanefnd og kom til tals á sínum tíma.

Mig langar að byrja á bls. 3, þar sem segir í lokamálsgrein 5. gr.:

„Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um árlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sveigjanleikareglur og eftirlitsreglur í samræmi við sameiginlegt markmið skv. 1. mgr.“

Nú hafa ráðherrar mikil völd og ráðherra hefur töluvert mikið um þetta að segja, en er það rétt að ráðherra geti með einfaldri reglugerð ákveðið árlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi? Ég velti því bara upp, hæstv. forseti, hvort það sé eðlilegt.

Í 6. gr. er talað um losunarleyfi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sækja ber um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar sem skal gefa út leyfið innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst stofnuninni enda hafi allar tilskildar upplýsingar borist henni og sýnt þyki að rekstraraðili sé fær um að vakta og gefa skýrslu um losun frá starfseminni.“

Þarna er sagt að losunaraðili eða umsóknaraðili skuli senda inn ákveðnar upplýsingar og hann sé fær um að vakta og gefa skýrslu um losun frá starfseminni. Kallar þetta e.t.v. á ákveðinn kostnað, einhverja umsýslu hjá þeim er sækir um þetta leyfi? Og því er ekki svarað, svo ég sjái, ekki við þann lestur sem ég hef náð að fara í á þessu plaggi, hvort losunarleyfi komi til með að vera ókeypis. Við hljótum því að kalla eftir svörum við því hvort það sé hugmynd ráðherra að losunarleyfið kosti eitthvað og hvort þeir fjármunir renni til Umhverfisstofnunar til að mæta þeirri fjölgun starfa sem hér er líka rætt um.

Á bls. 4 er framhald af 6. gr. þar sem talað er um úthlutanir á þessum leyfum og svoleiðis og er fjallað um það að ef rekstraraðili hefur hætt starfsemi þarf hann að geta sýnt fram á að starfsemin geti hafist á ný innan hæfilegs tíma til að fá úthlutað. Ég velti fyrir mér hver hinn hæfilegi tími er. Er það eitthvað sem ráðherra mun skilgreina í reglugerð eða mun Umhverfisstofnun geta ákveðið sjálf hvað telst hæfilegur tími í þessu tilviki?

Áfram er hægt að halda. Ég ætla eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að nefna 28. gr. þar sem er lagt upp með nokkuð mörgum útgáfum af því hvernig hægt er að beita dagsektum. Áhugavert fyrir nefndina að fara vel í gegnum það.

Síðan vil ég nefna að mál þetta er vitanlega komið inn á grundvelli EES-samningsins en er samt í raun ekki EES-mál. Íslendingar reyndu, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, að fara þá leið að gera þjóðréttarlegan samning við Evrópusambandið um það hvernig að þessu skyldi staðið. Að sjálfsögðu vildi Evrópusambandið ekki gera það heldur krafðist þess að þetta færi inn í EES-samninginn. Þá var nýtt ákveðin samstarfsheimild sem er í 31. gr. samningsins og málið gert á þeim grunni. Þetta er bókun við samninginn þar sem kveðið er á um samvinnu ríkja utan fjórþætta frelsisins. Þannig er þetta mál komið inn því að sem betur fer tókst að forða því að það yrði sett beint inn í EES-samninginn.

Síðan er hér á bls. 18 rætt um kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og kynnt kerfi sem heitir CORSIA. Mig langar að varpa því fram hvort hæstv. ráðherra geti svarað því hvort gert sé ráð fyrir að þetta kerfi kosti eitthvað. Kann þarna að verða til viðbótarkostnaður eða eru breytingar á öðrum kostnaði hjá þeim sem koma til með að standa straum af þessu? Síðan er einfaldlega hægt að velta því upp, í ljósi þeirra aðstæðna sem eru, að við sáum bara í síðustu viku í fjölmiðlum eða einhvers staðar sá ég það, að gerð var könnun meðal aðila Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ef ég man rétt, og þar eru ýmsar útgáfur á því hvenær menn búast við því að flug komist aftur á rétt ról. Mig langar því að velta upp hvort þetta mál, í það minnsta það sem snýr að flugrekstri, sé ekki tímaskekkja, hvort ekki sé best að geyma það bara. Það er ekki að sjá að flugið sé á nokkurn hátt að ná sér alveg á næstunni. Ef þetta mál mun leiða til íþyngjandi aðgerða eða kostnaðar fyrir þann rekstur finnst mér ekki skynsamlegt að fara að auka á hann miðað við þær aðstæður sem eru uppi í dag.

Á bls. 21 er kafli um mat á áhrifum af frumvarpinu. Hér hefur verið bent á, m.a. benti hv. þm. Bergþór Ólason á það, öll þau störf sem virðast eiga að verða til hjá Umhverfisstofnun í kringum þessi mál. Ef við erum að lesa þetta rétt — nú þarf að hafa aðeins fyrirvara á því, málið er nýkomið hingað inn og við höfum kannski ekki fengið skýringar á öllu saman — eru það sex til tíu störf eins og hv. þingmaður benti á. Hér stendur í lok kaflans um mat á áhrifum:

„Gert er ráð fyrir að kostnaður sem hlýst af frumvarpinu, verði það óbreytt að lögum, rúmist innan fjárheimilda málefnasviðs 17 Umhverfismál í gildandi fjármálaáætlun.“

Ég velti því bara fyrir mér: Eru svo miklir afgangspeningar á þessum lið að hægt er að bæta við öllum þessum ríkisstarfsmönnum, fjölga um öll þessi störf, blása út báknið, um sex til tíu stöðugildi? Ég hef fyrirvara, ef ég er að skilja þetta rétt, hæstv. forseti. Getur virkilega verið að við höfum verið svo rausnarleg hér á þingi við þennan lið að þetta rúmist þar inni, það þurfi ekki að koma til aukafjárveitingar? Mig langar bara að hæstv. ráðherra staðfesti það að gert sé ráð fyrir að þetta rúmist í þeim fjárveitingum, að ekki komi til með að þurfa að bæta við fjárveitingu vegna þessa. Þá um leið hljótum við að draga þá ályktun, ef þetta rúmast innan fjárveitinga, að ekki þurfi að leggja frekari álögur á atvinnulífið sem nemur þeim kostnaði sem þarna er undir.

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið undir að það er svolítið sérstakt að á dagskrá í dag séu meira og minna mál sem eru til að íþyngja atvinnulífinu eða Íslendingum. Það er verið að auka skatta, opna fyrir alls konar sektir, auka eftirlit, þvæla systemið, þvæla kerfið. Er það það sem við þurfum núna? Þurfum við ekki einmitt að horfa á hina hliðina á þessum peningum? Þurfum við ekki að létta atvinnulífinu og einstaklingum lífið fram undan, þurfum við ekki að lækka skatta, lækka álögur á atvinnulífið? Hverfa frá þessum földu umhverfissköttum sem eru, sem eru þó ekkert faldir, kolefnissköttum o.s.frv.? Er ekki málið, herra forseti, að breyta um takt og hverfa frá þessum neikvæðu skilaboðum sem ríkisstjórnin er að senda og fara yfir í jákvæð?