150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég verð að vera aðeins ósammála vegna þess að yfirleitt eru ódýrustu vörurnar á markaði, frystivörur og vörur fyrir örbylgjuofna, í plastumbúðum. Þetta eru yfirleitt ódýrustu vörurnar í búðunum og því eru þær oft keyptar af þeim sem síst skyldi í sjálfu sér vegna þess að það er fólkið á lægstu laununum og lífeyri. Það er með þessu að borða bæði óhollari fæðu, myndi ég segja, og nota mest af þessum plastvörum. Ef eitthvað nýtt kemur í staðinn fyrir plastumbúðirnar sem veldur því að þessar vörur stórhækka í verði kemur þetta þeim í koll. Þess vegna þarf að sjá til þess að þeir sem eru verst settir hafi efni á að kaupa hollari vörur og heilnæmari eins og við vitum að þeir efnameiri geta gert.

Síðan er annað sem ég hef líka tekið eftir. Veiðarfæri og alls konar stóra hluti og plastvörur rekur upp að ströndum og þá er spurning um kostnaðinn af þessu og hvort ekki sé hægt að nota þessa fjármuni í hreinsun, láta þá fara beint í að hreinsa upp þessi svæði. Ég myndi segja að þá værum við að láta þá sem framleiða vöruna og nota hana sjá til þess að þetta verði hreinsað.