150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það eru tvö atriði sem mig langar til að koma inn á. Annað snýr að kostnaði og hitt að innleiðingunni sem slíkri. Fyrst varðandi kostnaðinn. Það segir í frumvarpinu á bls. 9, í lið 6 sem fjallar um á mat á áhrifum, að kostnaður við eftirlitið muni að líkindum greiðast úr ríkissjóði. Eftirlitið er útlistað í 1. lið 7. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Til framfylgdar ákvæðum laga þessara um plastvörur skal Umhverfisstofnun meðal annars:

1. hafa eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara, sbr. 37. gr. d–g , með samræmdum hætti á landinu öllu […]“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að útlista þetta og meta hver kostnaðurinn á bak við þetta er. Þetta er með samræmdum hætti á landinu öllu. Við sem búum úti á landi vitum að það er kostnaður við að hafa eftirlit með fjarsvæðum og getur verið meiri ef heimastöðin er skrifstofa Matvælastofnunar.

Hitt atriðið sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um er innleiðingarákvæðið í 10. gr., en þar segir:

„Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé algerlega hrein innleiðing eða hvort það séu einhver atriði í frumvarpinu sem eru, hvað skal segja, (Gripið fram í.) héðan heiman að. Hæstv. ráðherra skilur hvað ég er að fara í þessum efnum. Þetta eru ekki margar greinar þannig að það ætti ekki að vera flókið að útlista það ef eitthvað af þeim greinum sem í frumvarpinu eru ekki það sem ég leyfi mér að kalla hrein innleiðing.