150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Tvennt kom upp í hugann sem fékk mig til að koma hingað upp í andsvar við hv. þingmann. Annars vegar það sem hann nefndi reyndar í andsvari við hæstv. ráðherra, þ.e. allur þessi fatnaður úr plasti í rauninni og svo það sem hann benti réttilega á að nú þegar við forðumst að snerta hvert annað eða hluti sem aðrir hafa kannski verið með í höndunum, þá gerum við hvað? Við notum einnota umbúðir, einnota verkfæri, sem er að mörgu leyti ákveðin sóun, það er rétt, en það leysir á sama tíma ákveðin vandamál. Því fylgir líka ákveðin sóun og ákveðin eiturefni vitanlega að vera alltaf að vaska upp og allt það.

En ég velti fyrir mér hvort það sé endilega rétt að fara þessa leið, að banna svona mikið af þessum vörum, hvort við séum búin að gefast upp á því að kenna okkur að nota og umgangast plastglös, plastdiska, hnífapör og þess háttar, því að þó að það heiti einnota þá er það ekkert alltaf einnota. Hvað á að koma í staðinn? Margt af því sem boðið er upp á í dag er gjörsamlega gagnslaust. Þegar maður ætlar að reyna að nota einhver áhöld úr t.d. bambus eða einhverju slíku endar það kannski með ósköpum. Þetta er varðandi umbúðirnar eða þessar plastvörur.

Hitt er hvort þingmaðurinn geti verið sammála mér um það að mikilvægt sé að hvetja til þess að menn noti meira af lífrænum efnum í framleiðslu. Við getum séð t.d. ull sem er framleidd á Íslandi, loðdýr, framleiðsla á vörum úr skinnum er miklu umhverfisvænni ef þær lenda í hafinu heldur en bútur úr plasti, myndi ég ætla. Framleiðslan kann að vera svipuð, ég þekki það ekki, svo ég taki það fram. En eigum við ef til vill að horfa á slíkar lausnir, hv. þingmaður?