150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Jú, ég get alveg verið sammála honum. Í sambandi við föt þá hef ég t.d. áhyggjur af því að við erum komin með svo mikið plast. Í nýjustu rannsóknum sem ég sá eru vísindamenn að taka borkjarna úr jöklum til að tékka á því hvort við myndum finna örplast í þeim. Svarið var já og við erum að tala um einhver ár aftur í tímann, jafnvel áratugi. Á sama tíma sjáum við líka auglýsingu um jógúrt sem allt í einu er komin í pappa. Það virkar, sem var áður í plasti. Þannig að það er allt hægt.

Maður hefur líka séð annað. Það sem ég varð eiginlega mest hrifinn af var í einhverjum þætti þar sem sýnt var fram á að hægt var að borða umbúðir utan um matvæli. Hægt var að borða það allt saman. Það var ekkert eftir, innihaldið var borðað og umbúðirnar. Svona uppfinningar eru bara snilld. Ef við gætum fengið og hvatt unga uppfinningamenn til að reyna að finna einhverjar svona lausnir, þá erum við í góðum málum. Ég held líka að það séu ágætislausnir að fara aðeins aftur í tímann, hugsa til gamalla daga þegar við vorum með mjólk í glerflöskum eða í járnbrúsum hreinlega. Að vísu voru járnbrúsarnir iðnaðarvara en gler var notað lengi. Síðan fórum við yfir í pappa og svo erum við farin að koma með alls konar umbúðir í plasti, þannig að við höfum lausnir, það bara spurning hvað þær kostar og hvernig við ætlum að útfæra þær.