150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Jú, við vorum hér með aska í gamla daga, það var ekki flókið mál. En við erum líka í öðrum vandamálum núna. Það er auðvitað snilldarhugmynd t.d. með plastpokana, að ef við eigum að borga 30 kr. fyrir plastpoka en slepptum því að koma með þá, fengjum við 15 kr. afslátt í staðinn. Það væri mjög hvetjandi. En það eru önnur vandamál sem koma upp í þessu Covid-ástandi. Það eru bláu plasthanskarnir sem fjúka út um allt. Við erum oft með einhverjar lausnir, sem eru ekki lausnir, heldur leysum við vandann á einum stað en aukum hann á öðrum stað. Það er auðvitað ekki gott.

Það væri alger snilld ef við gætum nýtt hlutina betur, t.d. í skinnaiðnaðinum og öðru. Hann var algerlega drepinn af þeim sem eru á móti kjötframleiðslu og kjötafurðum, en skinnið er auðvitað náttúruleg vara alveg eins og margt annað og það er auðvitað mun betra að nota það en plast, það segir sig sjálft. Það þarf engan snilling til að átta sig á því að það brotnar algjörlega niður og skilur ekki eftir eitthvað sem er ónáttúrulegt eða veldur skaða í umhverfinu eins og plastið gerir.

Við verðum að hvetja til nýsköpunar. Við erum að tala um nýsköpunarverkefni, eins og Kríusjóð og aðra sjóði, og þarna væri sko kjörið að fá ungt fólk og aðra til að spreyta sig á því og finna lausnir vegna þess að við höfum lausnir við þessu öllu saman. Spurningin er að finna þær og hvetja til þess og skapa tækifæri til að þróa þær. Þá held ég að við séum bara í fínum málum.