150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, atriði sem snúa að plastvörum. Þetta er, má segja, að ákveðnu marki framhald af máli sem var til meðferðar á síðasta þingi þar sem m.a. var mjög þrengt að notkun plastpoka. Til að mynda plastpokarnir, ég man ekki hvað þeir eru kallaðir, þunnildin, gegnsæju plastpokarnir sem maður hefur sett ávexti og annað í gegnum árin. Skárra væri það nú að þeir væru hættir að fjúka út um allt, að mati plokkaranna, það er búið að banna þá. Það væri þá mjög virkur svartur markaður með þessa poka ef þetta væri enn þá stórkostlegt vandamál.

Það vakti athygli sums staðar í fyrra að ég var ekki á nefndarálitinu sem afgreiddi það tiltekna mál úr umhverfis- og samgöngunefnd, sem sagt þrengingunni hvað varðaði afhendingu plastpoka, skilyrði um að það væri rukkað fyrir þá og síðan að endingu bann á notkun þeirra eða afhendingu þeirra. Þetta mál er af sama meiði. Það er alveg ofboðsleg forsjárhyggja í því, rétt eins og málinu sem var afgreitt í fyrra. Það er eiginlega alveg sama hvar er, frumvarpið er ekki nema 12 greinar, og það er eiginlega bara í gildistökuákvæðinu sem ekki er einhver æpandi forsjárhyggja sem okkur er send frá Brussel í þessu máli.

Ég sá býsna pennafæran mann skrifa um það í tengslum við frumvarpið sem var samþykkt í fyrra varðandi plastpokana að þetta væri eitthvert það ömurlegasta mál sem hann hefði séð undanfarið úr pólitíkinni. Loksins hefði hann verið ánægður með að hann væri að ná tökum á plastpokanotkun, væri að nota þá undir ruslið og upplifa það að hann væri að leggja eitthvað af mörkum. Svo kæmi þessi forsjárhyggja frá okkur á þinginu sem skyldaði hann til að gera þetta. Það færi öll gleði úr því að þróa eigin samskipti við umhverfið þegar það er orðin kvöð en ekki eitthvað sem almenningur sækist eftir að gera og telur hafa markmið í sjálfu sér.

Það er auðvitað mjög sérstakt að einhverjum sé beinlínis bannað með lögum að gefa eitthvað sem hann á. Það má vera að það séu fleiri dæmi um slíkt en ég þekki þau alla vega ekki í fljótu bragði. Ég benti á þetta í tengslum við umræðuna um plastpokamálið í fyrra og bendi á þetta aftur núna. Hér í 5. gr., undir liðnum um afhendingu tiltekinna einnota plastvara, er sagt, með leyfi forseta: „Óheimilt er að afhenda eftirfarandi einnota plastvörur án endurgjalds á sölustöðum“, og síðan eru taldir upp þeir hlutir sem er bannað frá og með tilteknum tíma að gefa, en það má selja þá og gjald skal vera sýnilegt á kassakvittun. Erum við ekki farin að teygja okkur fulllangt þarna í forsjárhyggjunni að beinlínis banna fólki eða fyrirtækjum og rekstraraðilum að gefa eitthvað? Það verður algerlega ónýtt gamla góða hugtakið um kaupbæti fljótlega ef fram heldur sem horfir.

Aftur að forsjárhyggjunni og smámunaseminni. Rétt að taka það fram í byrjun að auðvitað viljum við öll ganga vel um og lágmarka mengun og óþrifnað. Það er mjög pirrandi að sjá bláa eyrnapinnastöngla í fjörum landsins og þar fram eftir götunum og mesta furðu hve illa gengur að koma því í gegn að slíkt skuli ekki fara niður um klósettið, ekki frekar en blautþurrkurnar og handþurrkurnar. En það er engu að síður ofsaleg forsjárhyggja í þessu, svo ég segi það aftur. Ég upplifi þetta eins og menn séu að reyna að setja plástur á eitthvert sár eða upplifun og á sama tíma forðast menn eins og heitan eldinn að ræða stóru vandamálin í plastumhverfinu sem er þessi losun í hafið sem á sér að langmestu leyti stað í Asíu og Afríku.

Bara svo dæmi séu tekin um hversu langt menn ætla að seilast í því að hafa vit fyrir okkur þá er hér í 5. gr. liður sem heitir Gerð og samsetning einnota drykkjaríláta, og þar segir, með leyfi forseta:

„Einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti sem nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr., er einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir.“

Það er náttúrlega engin spurning að það er ofurembættismaður sem skrifar þennan ágæta texta. Það eru mörg svona tilvik í textanum og þetta er einhvern veginn allt af sama meiði, nú skal beita hörðu til að hafa vit fyrir okkur í samskiptum okkar borgaranna við plastdjöfulinn.

Annað sem mig langaði að nefna hér eru atriði sem snúa að kostnaði. Hæstv. ráðherra svaraði andsvari mínu áðan og sagði að kostnaður væri áætlaður 6–7 milljónir uppsafnað á þriggja ára tímabili og ég fagna því ef það er raunin. Það verður þá vel sloppið miðað við sjö og hálft stöðugildi sem á að koma til hjá Umhverfisstofnun og öðrum stofnunum umhverfisráðuneytisins í tengslum við málið sem var rætt á undan þessu. Það segir í greinargerð í 6. lið, um mat á áhrifum, að kostnaður við eftirlitið muni að líkindum greiðast úr ríkissjóði. Þar er vísað í 1. lið 7. gr. þar sem segir að Umhverfisstofnun skuli m.a. hafa eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara, með samræmdum hætti á landinu öllu.

Svo segir áfram í 6. lið, um mat á áhrifum, með leyfi forseta:

„Búast má við að lagasetningunni fylgi aukin verkefni Umhverfisstofnunar vegna eftirlits með plastvörum á markaði. Gert er ráð fyrir að aukin fjárframlög til stofnunarinnar muni mæta þeim kostnaðarauka við rekstur sem af þessum verkefnum hlýst.“

Ef raunin er sú að þetta verður þó ekki dýrari en 6–7 milljónir, sem eru nú samt peningar, er það jákvætt. En við spyrjum að leikslokum, ég er hræddur um að það verði ekki niðurstaðan. Miðað við vinnuna sem fór greinilega í að kynjagreina þetta frumvarp, svo ég segi, með leyfi forseta:

„Líkur eru taldar á að lagasetningin hafi óveruleg áhrif á stöðu kynjanna. Lagasetningunni er ekki beint sérstaklega að öðru kyninu umfram hinu og má ætla að þær plastvörur sem lagasetningin tekur til séu að meginstefnu notaðar til jafns af konum og körlum. Ekki er mögulegt að fullyrða að þetta hafi bein áhrif á stöðu kynjanna og ætla má að áhrifin geti eftir atvikum jafnast út á milli kynjanna ef horft er til allra þeirra plastvara sem lagasetningin tekur til. Það er einungis ein vörutegund sem lagasetningin tekur til og gera má ráð fyrir að yfirgnæfandi hluti kaupenda sé af öðru kyninu.“ — Þar er rætt um tíðavörur.

Miðað við greininguna sem fer í að kyngreina áhrif frumvarpsins þá þykir mér auðvitað ekki boðlegt að kostnaðaráhrifin séu ekki greind meira en að vísa til þess að gert sé ráð fyrir því að aukin fjárframlög til stofnunarinnar muni mæta þeim kostnaðarauka við rekstur sem af þessum verkefnum hlýst.

Það má reikna með því að þetta sé eitt skref í lengri vegferð. Það voru plastpokarnir í fyrra sem eru kallaðir einnota. Ég er svo heppinn að ég held að það ónýtist aldrei hjá mér plastpoki, það passar nokkurn veginn að plastpokar sem ég kem með heim úr verslunum enda í ruslatunnunni og halda þar utan um sorp sem fer í sinn hefðbundna farveg. Þannig held ég að það sé á flestum heimilum. Ég held að það hljóti að vera uppgrip í því að selja plastpokarúllur núna eftir að það var þrengt að þessu. En það sem ég vildi koma inn á varðandi það að þetta væri partur af lengri vegferð: Það voru plastpokarnir í fyrra og nú eru það einnota matarílát, gafflar og ýmislegt fleira sem er talið upp í nokkuð langri upptalningu í 5. gr., hræripinnar fyrir drykkjarvörur, sogrör, diskar, hnífapör og ýmislegt fleira. Hvert verður þriðja skrefið? Verður þá t.d. lagt til atlögu við filmur sem eru notaðir til að pakka inn matvælum? Verður horft þröngt á umhverfisáhrifin af þeim filmum eða verður tekið tillit til þess að þær lengi líftíma matvæla miðað við það sem annars væri? Það verður að horfa á þetta í stærra samhengi og í augnablikinu er ég hræddur um að verið sé að leggja mikla áherslu á atriði sem í sjálfu sér skiptir ekki miklu máli í stóru myndinni en það eykur mönnum vellíðan að þurfa ekki að taka á stóru vandamálunum. Það er eins og er með svo margt annað í þessu pólitíska umhverfi að leiðin til þess að forðast flóknu og stóru umræðuna er sú að setja plástur á eitthvert minna atriði. Ég er hræddur um að það eigi að nokkru marki við í þessu máli. Ég er hræddur um að næsta skref, þriðja skrefið í þessari vegferð, ef við köllum þetta skref tvö, verði á þeim nótum að raunverulega neikvæð umhverfisáhrif gætu hlotist af.

Ég ætla ekki hafa þetta lengra að sinni. Ég hlakka mikið til að fá málið til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir svörin í andsvari hér áðan. Það verður forvitnilegt að sjá svör við þeim spurningum sem koma til með að vakna um leið og málið verður tekið til meðferðar.