150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðu um þessi mál einfaldlega vegna þess að þau eru mjög mikilvæg. Ég heyri að það er samhljómur á meðal þingmanna um að draga úr mengun af völdum plasts, sérstaklega að koma í veg fyrir að hún berist til sjávar. Það er ánægjulegt og gott leiðarljós fyrir okkur til að stíga enn stærri skref en hér eru tekin, því hér hefur vissulega verið nefnt að þetta væri sennilega hluti af stærri vegferð og ég ætla svo sannarlega að vona að svo sé.

Mig langar að taka undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni að það þarf að líta til þess við allar aðgerðir og ráðstafanir eins og hér eru boðaðar, sem og í öðrum umhverfismálum, að reynt sé að passa upp á að slíkt bitni ekki á þeim sem minnst hafa milli handanna. Ég tek undir það, enda er það hluti af því að byggja upp réttlátt samfélag.

Mig langar að segja, vegna umræðu um þær vörur sem hér er verið að leggja til að verði bannaðar, sem allt eru einnota plastvörur sem finnast í miklum mæli á ströndum í Evrópu, að það eru til svokallaðar staðgönguvörur fyrir þetta allt saman. Það eru til aðrar vörur sem ekki eru úr einnota plasti.

Hér er spurt út í nýsköpun. Jú, við erum einmitt að setja stóraukið fjármagn í nýsköpun á Íslandi núna þannig að ég held að þeirri spurningu sé svarað. En hér er líka spurt: Hefur það ekki virkað hingað til að reyna að beina því til fólks að nota ekki þessar vörur? Ég get ekki séð að það hafi virkað. Ég get ekki séð að það hafi virkað að beina því til fólks að nota ekki þessar vörur. Það hefur virkað á suma en greinilega ekki alla, einfaldlega vegna þess að það berst allt of mikið af þessum vörum út í umhverfið. Þess vegna er verið að stíga það skref að taka algengustu einnota plastvörurnar sem finnast úti í náttúrunni og setja bann við markaðssetningu þeirra. Allt vörur sem hægt er að nota aðrar vörur í staðinn.

Síðan hefur líka verið spurt: Erum við bara að setja plástur á sárin? Erum við ekki að horfa á stóru myndina? Við reynum að grípa til aðgerða til að draga úr plastmengun á Íslandi þegar við ættum í rauninni að vera að horfa til þess að 90% af allri plastmengun sem berst út í hafið kemur frá nokkrum stórum ám í Afríku og Asíu. Það er alveg rétt að þaðan kemur langmesta mengunin, en réttlætir það það að Íslendingar grípi ekki til aðgerða heima fyrir? Mun það breyta þeirri staðreynd að um 70% af þeim fýlum sem rannsakaðir hafa verið eru með plast í maganum eða 40–50% af þeim kræklingi við Íslandsstrendur sem rannsakaður hefur verið? Nei, það gerir það ekki. Að sjálfsögðu eigum við að sýna gott fordæmi og ganga fram fyrir skjöldu í þessu máli.

Aðeins varðandi Asíu, Afríku og önnur ríki. Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram að þar berst mikil mengun út í umhverfið. Þess vegna hefur Ísland, með mig sem umhverfisráðherra, gengið fram fyrir skjöldu ásamt fleiri ríkjum til að krefjast alþjóðlegs samnings sem taki á mengun af völdum plasts í hafi á alþjóðlegum vettvangi. Það tel ég gríðarlega mikilvægt og tek undir með þeim sem hafa bent á það hér í dag að þetta sé mikilvægt atriði á alþjóðavettvangi.

Aðeins að kostnaðinum. Ég verð að hryggja hv. þm. Bergþór Ólason því að ég gerði mistök áðan. Það voru 6–7 milljónir á ári í þrjú ár. Ég biðst innilegrar afsökunar á því að ég sagði að það væri allt yfir þrjú ár, en ég veit að hann fyrirgefur mér, ég biðst afsökunar á þessu. Þetta átti við um eftirlitið.

Hér var komið aðeins inn á það að lögð hafi verið vinna í það að reyna að greina áhrif þessa frumvarps á kynin. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég er mjög stoltur af því að ráðuneyti mitt skuli ráðast í það að greina áhrif frumvarpsins á kynin, hvort áhrifin geti verið mismunandi á þau okkar sem eru af karlkyni, kvenkyni eða hvernig sem á það er litið.

Ég vil fá að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um að plast sé afskaplega praktískt efni. Plast hefur einmitt dregið úr matarsóun í heiminum. Plast hefur valdið straumhvörfum í því að geta varið vöru í flutningi o.s.frv., enda erum við ekki að tala um að banna slíkar vörur. Við erum að tala um að banna óþarfaplast. Við erum að tala um að banna óþarfa einnota plast sem við þurfum ekki á að halda, en ekki plast almennt. Þannig erum við ekki að banna að pakka matvælum í plast. Við erum ekki að banna að nota plast til að draga úr matarsóun eða verja vörur.

Ég er hins vegar mjög ánægður með það í umræðunni að við erum sammála um að draga úr þessari mengun. Ég er sannfærður um að frumvarpið er liður í því í þeirri vegferð okkar að draga einmitt úr framboði á þeim vörum sem finnast í hvað mestu magni úti í náttúrunni og eru einnota.

Síðan bendi ég á varðandi vandamál sem hér var komið inn á áðan með lífrænan úrgang í pokum sem rifnuðu, að þá fer maður yfir í moltugerð og það vandamál hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og hlakka til að málið komi aftur til umræðu.