150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[19:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað upp og svara flestum af þeim spurningum sem til hans var beint. Það er alveg til fyrirmyndar og ég vil hrósa ráðherra fyrir það hvað hann er einlægur í baráttu sinni fyrir umhverfinu. Við höfum öll áhyggjur af umhverfinu en við nálgumst það að sjálfsögðu með mismunandi hætti.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem ég minntist á í ræðu minni um það magn sem um er að ræða. Vitum við hve mikið magn þetta er af þeim plastvörum sem þarna eru nefndar og við erum að banna? Hvað eru þetta mörg kíló, tonn eða einingar sem er flutt inn af þeim liðum sem þarna eru taldir upp, sem munu þá hverfa núna úr okkar innflutningstölum eða slíku? Er eitthvað af þessu framleitt hér innan lands? Það er annað sem kom upp í hugann. Erum við að framleiða eitthvað af þessum vörum innan lands sem nú verða ekki framleiddar lengur? Hefur það einhver áhrif, hugsanlega á einhver fyrirtæki, fækkun starfa, eitthvað þess háttar? Eða er þetta svo lítið magn að það skiptir ekki höfuðmáli þegar á hólminn er komið?