150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[19:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Ég er ekki alveg klár á því hvernig er með framleiðslu á þessu innan lands, ég verð að viðurkenna það. Magnið sem hér er spurt um liggur heldur ekki fyrir, en það má reyna að leita eftir þeim upplýsingum í meðförum nefndarinnar, að sjálfsögðu. En þetta er eitthvað sem liggur ekki alveg ljóst fyrir.

Mig langar síðan að nefna líka að einnota plastvörur, eins og við þekkjum, koma inn á afskaplega fjölbreytt svið. Þær eru notaðar mikið en þetta er náttúrlega skammlíf neysluvara og það er ekkert vit í því að vera að nota vörur sem við hendum eftir eitt eða tvö skipti þegar við eigum aðra möguleika sem eru mun umhverfisvænni. Ég segi nú bara að ég held að við eigum að geta náð árangri með þessu og lítum, eins og ég sagði áðan, á þetta sem sameiginlegt verkefni okkar allra.

Ég skal reyna að komast að þessu með framleiðsluna hér á landi áður en ég kem upp í pontu næst.