150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Markmið frumvarpsins er að breyta fyrirkomulagi jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara, en slík jöfnun hefur þann tilgang að tryggja framboð og sambærilegt verð á olíuvörum sem ætlaðar eru til notkunar innan lands, óháð staðsetningu sölustaða olíuvara. Flutningsjöfnun á olíuvörum fer nú fram samkvæmt lögum um jöfnun flutningskostnaðar olíuvara, nr. 103/1994. Samkvæmt ákvæðum laganna er starfræktur flutningsjöfnunarsjóður olíuvara og lagt er sérstakt flutningsjöfnunargjald á innfluttar olíuvörur sem er forsenda tekna sjóðsins. Sjóðurinn hefur sérstaka stjórn sem sér um daglegan rekstur, m.a. að úrskurða hvað teljist flutningskostnaður og annast greiðslur flutningsjöfnunar til söluaðila.

Lengi hefur legið fyrir að núverandi fyrirkomulag er ekki gallalaust. Ráðuneytið óskaði eftir því að stjórn flutningsjöfnunarsjóðs myndi vinna minnisblað um stöðu sjóðsins þar sem fram kæmu ábendingar og eftir atvikum tillögur um úrbætur á verklagi. Meginniðurstaða stjórnarinnar var sú að tilvist sjóðsins væri tímaskekkja, flutningsmynstur hefði breyst verulega frá því að kerfinu var komið á fót og að ferlið væri allt of flókið og kostnaðarsamt. Réttast væri því að fella á brott lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara og leggja sjóðinn niður. Engu að síður væri opinber stuðningur við framboð á orkugjöfum til samgangna á byggðalega viðkvæmum svæðum mikilvægur og ætti fyllilega rétt á sér. Slíkur stuðningur ætti þó að eiga sér annan farveg, svo sem innan byggðaáætlunar. Það myndi einfalda framkvæmd flutningsjöfnunar verulega, auk þess sem koma mætti styrkjum með markvissari hætti til þeirra staða sem þarfnast slíks stuðnings hvað mest.

Í ljósi þessa vann ráðgjafarfyrirtækið Capacent sérstakt mat á byggðaáhrifum þess að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara og til hvaða annarra stuðningsaðgerða þyrfti að grípa til að tryggja að aðgerðin leiddi ekki til neikvæðra áhrifa á búsetuskilyrði og byggðaþróun. Niðurstaða Capacent var m.a. sú að dreifingarkostnaður eldsneytis um landið væri ekki mjög stór kostnaðarliður í umfangi olíufélaganna og ef flutningsjöfnun yrði lögð af myndi það að öllum líkindum ekki hafa umtalsverð áhrif á verð á eldsneyti á stórum hluta landsbyggðarinnar. Það gæti þó haft þau áhrif að það félag sem annast mesta dreifingu um landið þyrfti að hækka verð hjá sér umfram önnur félög en líklegra væri að staðir legðust af sem hefðu minnst umfang og hæstan flutningskostnað. Það væri hins vegar mikilvægt að allir landsmenn hafi aðgang að eldsneyti og því væri ekki æskilegt að dreifing þess til fámennra, afskekktra staða legðist af. Til að koma í veg fyrir það væri þörf á stuðningi til aðila sem væru tilbúnir að veita þjónustu þar sem hana yrði ekki að finna að öðrum kosti.

Meginefni þessa frumvarps byggir á þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin og í frumvarpinu er lagt til að lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara verði felld brott. Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara verður því lagður niður og hætt verður að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á olíuvörur. Þess í stað er lagt til að færð verði í lög um svæðisbundna flutningsjöfnun lagastoð fyrir stuðningi til söluaðila olíuvara í dreifbýli. Slíkur stuðningur yrði fjármagnaður með hækkun vörugjalda á olíuvörur og færi fram með sérstökum flutningsjöfnunarstyrkjum vegna sölu olíu til innanlandsnotkunar á sölustöðum innan svæða sem búa við skerta samkeppnislega stöðu af land- eða lýðfræðilegum ástæðum. Markmiðið með styrkjunum yrði að tryggja framboð olíuvara á slíkum svæðum. Miðað við þá útreikninga sem Byggðastofnun hefur unnið fyrir ráðuneytið má ætla að slíkur byggðastuðningur næmi um 170 millj. kr. en heildarumfang flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara er í dag um 370–400 milljónir árlega.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að styrkirnir yrðu veittir á grundvelli umsókna söluaðila og að fjárhæð styrkjanna yrði ákvörðuð í samræmi við þá heildarfjárhæð sem fyrirhugað er að veita til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara í fjárlögum ár hvert, seldu magni olíuvara á viðkomandi sölustað og sérstakra byggðastuðla sem eiga að endurspegla byggðalega stöðu svæðis að mati Byggðastofnunar. Byggðastofnun myndi annast framkvæmd styrkveitinganna og yrðu styrkirnir veittir árlega. Frumvarpið lætur ráðherra eftir að öðru leyti að setja reglur um útreikninga, framkvæmd og fyrirkomulag styrkveitinganna að fenginni umsögn Byggðastofnunar.

Virðulegur forseti. Ljóst er að bæði atvinnuvegir og samgöngur eru enn háð olíuvörum sem orkugjafa og því sérstakt byggðamál að tryggja að þjónusta með olíuvörur haldi áfram í viðkvæmum byggðum, a.m.k. á meðan orkuskipti fara fram. Verði frumvarpið að lögum verður einfaldað til muna fyrirkomulag stuðnings vegna sölu olíuvara á viðkvæmum byggðalegum svæðum. Umsýsla og kostnaður vegna slíkrar jöfnunar lækkar verulega og við tekur mun gagnsærra kerfi sem er í samræmi við stefnu stjórnvalda um einfaldara regluverk fyrir atvinnulífið. Er því um verulega stjórnsýslubót að ræða, auk þess sem aðgengi að eldsneyti í strjálbýli verður áfram tryggt.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.