150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra framsöguna. Það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja ráðherrann út í. Í fyrsta lagi verð ég að viðurkenna að ég hafði bara ekki veitt því athygli að, eins og segir í frumvarpinu, flutningskostnaður olíuvara til Akureyrar hefur ekki verið jafnaður í núverandi kerfi, en þarna er átt við flugið, og er því ekki um að ræða neina breytingu vegna sölu olíuvara á Akureyri. Spurningin er þá hvort af þessu megi skilja að flutningsjöfnunin eigi við á Egilsstöðum og hvort ráðherrann hafi skýringu á því hvað veldur. Ég get alveg sagt að ég ætti að vita þetta en ég þekki ekki sögulegu skýringarnar á bak við þetta.

Hitt atriðið sem mig langar til að biðja hæstv. ráðherra um að fara aðeins í gegnum er að núverandi tekjurammi flutningsjöfnunarsjóðs er, ef ég greip tölurnar rétt, 350–370 milljónir á ári og ráðherra nefndi að vörugjöldin sem yrðu lögð til viðbótar ofan á gjaldstofnana yrðu 170 milljónir á ári. Þarna er 200 milljóna munur. Má skilja sem svo að stuðningur við flutning á fjarsvæðin verði sem nemur 200 milljónum lægri árlega hér eftir eða verður talan jöfnuð með fjárveitingu úr annarri átt? Það er auðvitað þannig að 200 milljónir, þótt það dreifist yfir landsbyggðina með einum eða öðrum hætti, eru líka peningar. Mig fýsir að vita hvort það séu fleiri stuðningsaðgerðir en þessi 170 millj. kr. vörugjöld sem eiga að koma til eða hvort með breytingunum (Forseti hringir.) megi reikna með því að u.þ.b. 200 milljónir verði til viðbótar á landsbyggðinni til greiðslu árlega hér eftir.