150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svarið. Hann hefur væntanlega tekið eftir því að það er engin gagnrýni á þær áætlanir að leggja niður flutningsjöfnunarsjóðinn heldur eru þetta bara vangaveltur sem snúa að þessu. Ég verð að viðurkenna að það getur ekki nema tvennt útskýrt þetta. Annaðhvort hefur kerfið verið alveg gríðarlega dýrt sem við höfum notast við hingað til eða að flutningsjöfnunargjaldið hefur verið of hátt. Ef þær 170 milljónir í vörugjaldinu nýja, sem verða færðar til Byggðastofnunar, duga til þess að leysa þetta mál landið um kring, en gjaldtakan hefur verið 350–370 milljónir hingað til, þá hafa þær 200 milljónir sem þarna eru á milli annaðhvort farið í mikla sóun og mikið kerfisapparat allt saman eða að innheimtan hefur beinlínis verið of há og hvorugu ætla ég nokkurn tímann að mæla með. Ef hægt er að ná sömu markmiðum með 170 milljóna vörugjaldi í staðinn fyrir 350–370 milljóna flutningsjöfnun, þá er það auðvitað hið besta mál.

Ég ítreka að meginmarkmiðið er, og það hefur komið held ég skýrt fram hjá ráðherranum, að þetta hafi ekki áhrif á verðlagningu úti á landi. Forsendur fyrir verðlagningu úti á landi eiga að halda þó að stuðningur í gegnum Byggðastofnun upp á 170 milljónir komi í staðinn fyrir stuðning í gegnum þetta dýra apparat sem kostaði 350–370 milljónir. Skil ég þetta ekki rétt, hæstv. ráðherra?