150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég vitni í minnisblað sem stjórn sjóðsins vann þá sagði hún að tilvist sjóðsins væri tímaskekkja, flutningsmynstur hefði breyst verulega og ferlið væri allt of flókið og kostnaðarsamt. Það fer of mikill kostnaður í kerfið sjálft. Auk þess hafa margir sett hornin í að þetta fyrirkomulag sé á. Það sama gilti um þá niðurstöðu Capacent að dreifingarkostnaður eldsneytis um landið væri ekki mjög stór kostnaðarliður í umfangi olíufélaganna og ef þessi flutningsjöfnun yrði lögð af myndi það að öllum líkindum ekki hafa umtalsverð áhrif á verð á eldsneyti á stórum hluta landsbyggðarinnar eftir sem áður. Ég deili þeim sjónarmiðum með þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls að það eru ákveðin svæði sem við þurfum að tryggja. Ef ekkert kerfi væri til staðar þá er hætta á því að annaðhvort gerðist; flutningskostnaðurinn myndi hækka verð umtalsvert á þeim stöðum eða þau félög eða það félag sem áður hefði sinnt þeirri þjónustu myndi leggja hana af. Þess vegna er mikilvægt að fara þar inn. Það er markmið þessa nýja kerfis að tryggja að íbúar á þeim stöðum sitji við sama borð og aðrir landsmenn, en að mati þeirra sem þetta hafa skoðað sitja allir aðrir við það borð. Það hafi verið kerfi í gangi sem hafi í sjálfu sér ekki skilað neinum viðbótarárangri miðað við það sem markaðurinn myndi ellegar sjá um. En ég ætlast hins vegar til þess og trúi því að menn muni fylgjast mjög vel með því að þetta kerfi virki. Virki það ekki þá þurfi að gera á því breytingar. Með þessu fyrirkomulagi þar sem þetta er gert í gegnum reglugerð hjá ráðherra er hægt að bregðast mjög hratt við ef upp koma þær aðstæður að kerfið virki ekki til hlítar.