150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun sem gengur efnislega út á niðurlagningu flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara. Ég vil í sjálfu sér fagna þeim markmiðum sem koma fram í frumvarpinu, að leitast við að einfalda regluverk og utanumhald um þennan mikilvæga þátt og að tryggja ákveðna jöfnun hvað varðar eldsneytisverð landið um kring. Ef raunin er sú að rúmlega helmingur tekna flutningsjöfnunarsjóðs á undanförnum árum hefur verið umfram það sem raunverulega þarf til að styðja við þessa starfsemi og tryggja þessa jöfnun þá er það auðvitað mjög alvarlegt. Það er alveg á mörkunum að ég trúi því. En ég dreg það ekki í efa að þetta hafi verið skoðað í ráðuneytinu og menn komist að þeirri niðurstöðu að með 170 milljóna vörugjaldi á eldsneyti sé hægt að ná nokkurn veginn sama árangri hvað flutningsjöfnun á eldsneyti varðar á landsbyggðinni og gert hefur verið með 350–370 milljónum í gegnum flutningsjöfnunarsjóð hingað til. Þetta þýðir í rauninni það að rekstur kerfisins og umsýsla hafi verið 180–200 milljónum hærri á ári, ef þessar tölur liggja svona eins og ég skil þær. Það er auðvitað bara fagnaðarefni ef hægt er að komast út úr slíkri sóun í kerfinu. En eins og ég segi, það er alveg á mörkunum að ég trúi því að hlutföllin séu svona í þessu en ég hef engar forsendur til að halda annað á þessum tímapunkti.

Það er markmið í sjálfu sér að einfalda rekstur og umsýslu svona verkefna og ég held að Byggðastofnun, þó að maður sé að skoða þetta frumvarp núna í fyrsta skipti, sé í sjálfu sér ágætlega til þess bær að sjá um umsýslu hvað þetta varðar. Væri áhugavert að vita hvort Byggðastofnun hafi kallað eftir því að fá fjárveitingar til að standa undir þeirri vinnu, því að í 6. kafla greinargerðar, þar sem fjallað er um mat á áhrifum, segir að áhrif á ríkissjóð verði engin, sem þýðir þá það að ríkissjóður ætlar sér ekki að leggja til meiri fjármuni en 175 milljónir, sem eru þó komnar til vegna vörugjaldsins til þessa verkefnis. Og þá er hægt að álykta sem svo, og ekki hægt annað í rauninni, að Byggðastofnun telji þetta svona tiltölulega hóflegt og nett verkefni að taka til sín. Því ber að fagna og ég lýsi yfir sérstakri ánægju með það og hefði sparað töluverðar upphæðir ef það hefði verið raunin í þeim tveimur málum sem við ræddum hér á undan.

Það er eitt í þessu sem ég vil fá að nefna sérstaklega. Í umsögn N1 við frumvarpið, og N1 er það fyrirtæki, ef ég skil rétt, sem hefur verið stærsti nettóþiggjandinn út úr þessu regluverki hingað til, eru gerðar ýmsar athugasemdir við frumvarpið eins og það kemur fram og er áhyggjum lýst yfir að með breyttu kerfi kynni að koma til þess „að verð hækkaði eða sala á olíuvörum til ákveðinna staða félli niður.“ Ég held að þetta sé atriði sem þurfi að skoða sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd. Og eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan þarf að ná utan um þau jaðartilvik sem þetta á við um, því að það hefur auðvitað gríðarleg áhrif á viðgang byggðar á hverju svæði ef ekki er hægt að sækja sér eldsneyti með tiltölulega tryggilegum hætti á einhverjum tilteknum stað. Það er örugglega hægt að ná fram þeim markmiðum í gegnum Byggðastofnun rétt eins og í gegnum þennan flutningsjöfnunarsjóð hingað til.

Þessu til viðbótar langar mig einnig til að koma inn á atriði sem ég vil kannski setja undir þann hatt að sporin hræða. Í greinargerð frumvarpsins segir í inngangi, þar er verið að fjalla um 175 milljónirnar í tengslum við vörugjöldin, með leyfi forseta: „sú breyting að tekjurnar renna ekki í sérstakan „flutningsjöfnunarsjóð“ heldur renna nú beint í ríkissjóð.“

Áfram segir:

„Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu gjaldsins sem skilað er í ríkissjóð. Árleg heimild til ráðstöfunar er síðan ákvörðuð í fjárlögum hverju sinni og er fjárhæðin á árinu 2020 alls 375 millj. kr.“

Þarna er verið að lýsa núverandi kerfi, svo það sé sagt hér, að menn finni sig ekki í þeirri stöðu árlega að slást um fjárveitingar til þessa verkefnis til að tryggja stöðu flutningsjöfnunar á landsbyggðinni, að það sé formað þannig. Ef það er ekki — nú gæti það verið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir, þó að ég hafi ekki rekið augun í það enn sem komið er — að við séum þá ekki að búa okkur til árlegan slag þar sem freistnivandinn verður á köflum mikill að slá þetta mikilvæga jöfnunartæki landsbyggðarinnar af. Ég vildi halda því til haga við 1. umr.

Það er rúm heimild sem ráðherra er veitt til þess að útfæra reglur um útreikninga, framkvæmd og fyrirkomulag styrkveitinga með reglugerð. Markmiðið er, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Með því að veita ráðherra slíkt svigrúm verður að telja að meiri líkur á að markmiðum laganna verði náð heldur en ef lögfestar verða ítarlegar reglur sem erfitt verður að víkja frá ef í ljós kemur að þær ná ekki tilgangi sínum.“

Þetta má svo sem til sanns vegar færa en engu að síður eru takmörk fyrir því hvað ég tel persónulega skynsamlegt, og þá algjörlega burt séð frá hæstv. samgönguráðherra, heldur bara almennt, hversu rúmar heimildir þingið getur veitt til að skapa ráðherra heimild til að stýra fjárveitingum sem þessum.

Nýlega kom upp umræða þar sem kom fram hörð gagnrýni á að veita ætti hæstv. menntamálaráðherra heimild til þess að útdeila fjármunum sem voru tilgreindir í aðgerðapakka tvö, ef ég man rétt, frá ríkisstjórninni og að meginhluta til með reglugerð. Hæstv. fjármálaráðherra tók þeim athugasemdum vel, treysti ég mér til að segja, það væri allt of rúm heimild þar.

En ég held að markmiðin séu ljós hjá öllum sem koma að þessu. Það þarf að tryggja jöfnun flutningskostnaðar og jöfnun eldsneytisverðs landið um kring. Það er algerlega ótrúlegt ef rúmlega helmingur af þessu flutningsjöfnunargjaldi hefur farið í rekstur kerfisins hingað til. En nú er tíminn til að losna út úr því fyrirkomulagi og ég skil það þannig. Meira að segja stjórn flutningsjöfnunarsjóðsins leggur til að sjóðurinn verði lagður niður þannig að það eru ekki margir í vörninni fyrir sjóðinn sem slíkan. En það er prinsippið um flutningsjöfnun sem þarf að passa upp á.

Ég ætla að láta þetta duga við 1. umr. hvað þetta varðar og hlakka til að fá málið til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.