150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mál. Ég held að bæði sá sem hér stendur sem og þeir þingmenn sem hafa tekið til máls séu sammála um að mikilvægt er að til sé fyrirkomulag til að tryggja að þessi jöfnun til þeirra staða sem á henni þurfa að halda fáist, til að tryggja annars vegar þjónustu og hins vegar sambærilegt verð og aðrir landsmenn búa við. Það er rétt að tilgangurinn í þeirri aðferðafræði, að gefa ráðherra þetta opna heimild til að aðlaga sig að þessu er í því skyni gerð að tryggja að markmiðið náist í stað þess að fara að skrifa það nú út í lög sem þyrfti þá að breyta ef í ljós kemur að stilla þurfi einhverjar skrúfur af til að tryggja að einhverjir staðir detti ekki út eða eitthvað slíkt.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, herra forseti, að það er jafnvægislist að fara þar á milli, annars vegar að tryggja að markmið verkefnisins náist sem í þessu skyni er kannski ekkert mjög stórt en fyrir þá staði sem upplifa það að fá þessa flutningsjöfnun og tryggja annars vegar aðgang að eldsneyti og þjónustu og hins vegar sambærilegt verð, þá skiptir hún gríðarlegu máli. Og ég held að hún sé réttlætanleg í þessu tilviki, en tek undir með hv. þingmönnum að mikilvægt er að nefndin fari vel yfir þetta og að þær upplýsingar sem við í ráðuneytinu getum gefið verða auðfúslega gefnar.