150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í nýlegum tölvupósti sem mér barst segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Sveitarfélögin eru að neita að semja um kostnað geðheilsu barnsins míns. Covid-lokanir í skólum hafa verið nógu slæmar en þetta verkfall er algjörlega óskiljanlegt fyrir barn og lokanir í skólum valda barni mínu óbætanlegum skaða. — Móðir í Kópavogi.“

Hvers vegna er svo erfitt að semja um kjör láglaunafólks sem er bara með 320.000 kr. á mánuði fyrir skatt? Ég hef spurt ráðherra ríkisstjórnarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum um það hvaða snillingur hafi reiknað það út að lífeyrislaun séu að meðaltali um 250.000 kr. á mánuði, atvinnulausir fái 290.000 kr. á mánuði, lágmarkslaun séu 335.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Ég spyr einnig hvers vegna hlutabótalaun séu 400.000 kr. að lágmarki. Engin svör hafa komið fram um þennan mismun.

Hið rétta er að þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi. Að borga fólki laun sem eru undir fátæktarmörkum er ekkert annað en heimska og það er fáránlegt að viðhalda svona grófri mismunun. Við eigum að vinna að réttlátu samfélagi. Það á að vera sjálfsagt að kjör fatlaðs fólks og langveiks fólks, eldri borgara, atvinnulausra og láglaunafólks séu mannsæmandi. Rétt væri að 400.000 kr. á mánuði fyrir skatt verði lágmarkið og það strax. Í því samhengi er tillaga Öryrkjabandalagsins um að grunnlaun hækki um 41.000 kr. á mánuði árið 2020 mjög sanngjörn. En svarið er nei, sem er undarlegt, sérstaklega í ljósi nýlegra hækkana til okkar og annarra æðstu embættismanna, eins og það er orðað í fréttum. Já, en því miður er það svo að enn einu sinni er ekki sama Jón og séra Jón, æðstu embættismenn þjóðarinnar.