150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er atvinnuleysið að verða það mikið vegna Covid-19 faraldursins að menn verða að leita jafnvel aftur til 1920, í upphafi heimskreppunnar, til að finna aðra eins stöðu. Það hljóta allir að vinna að því saman að leita allra leiða til að halda störfum gangandi.

Ég ræddi síðast í störfum þingsins um ástand í heimi grásleppuveiða og ætla að halda mig þar vegna fundar sem haldinn var í morgun í atvinnuveganefnd. Vegna alvarlegrar stöðu þeirra sem stunda grásleppuveiðar við Ísland var haldinn fundur í atvinnuveganefnd í morgun þar sem farið var yfir stöðuna. Þar komu fram upplýsingar sem benda eindregið til þess að Hafró hafi gert mistök í útreikningum á aflatölum áranna 1985–2008, en þær tölur eru lagðar til grundvallar útreikninga á ráðgjöf Hafró. Í stuttu máli snýst þetta um að rangur stuðull virðist hafa verið notaður við að umreikna tunnufjölda yfir í aflatölur af óslægðri grásleppu. Það er gert til þess að geta notað tölur frá 1985–2008 í samanburði við þær tölur sem koma eftir 2008, en það ár hófst vigtun á grásleppuhrognum og síðar 2012–2013 á heilli grásleppu eftir að skylt var að landa grásleppunni. Séu þær upplýsingar sem fram komu á fundinum á rökum reistar er líklegt að ráðgjöf Hafrós sé vanreiknuð um 20–25% en tölur um nýtingu grásleppuhrogna hjá vinnsluaðilum á grásleppu ætti að vera auðvelt að nálgast og erfitt er að rengja.

Skora ég því á Hafró að hafa samband við vinnsluaðila með það að markmiði að athuga hvort þær ábendingar sem fram komu á fundinum á fundi atvinnuveganefndar í morgun eigi við rök að styðjast því að það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.