150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[14:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja eins og er að ég hef verið í svolitlum vandræðum með þetta mál. Eins og sést á skjölunum er ég ekki með meiri hluta á nefndaráliti, ég hef verið að velta þessu meira og meira fyrir mér og er satt best að segja ekki alveg endanlega búinn að lenda því í kollinum á mér. Ég hef ákveðnar áhyggjur sem ég vona innilega að séu innstæðulausar og lít enn fremur fram á veginn vegna þess að fyrr eða síðar mun koma tilskipun frá EES sem mun fela í sér að við setjum löggjöf í samræmi við þá tilskipun.

Fyrst verð ég þó að nefna hugtakið sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór aðeins yfir og við ræddum mjög mikið í nefndinni. Það er þetta hugtak „góð trú“. Ég fagna áherslubreytingunni sem meiri hlutinn leggur til. Ég tel hana jákvæða og til þess fallna að skýra hugtakið þannig að það sé augljósara að það beri að túlka eins og meiri hlutinn nefnir þannig að menn þurfi að vera í góðri trú um að upplýsingarnar séu réttar. Það er ástæða fyrir því að ýmsir umsagnaraðilar skildu hugtakið öðruvísi og hún er sú að þegar uppljóstrun á sér stað er að mínu viti undantekningarlaust farið í manninn. Undantekningarlaust er farið í að reyna að komast að því hver uppljóstrarinn er. Það verður mjög mikið keppikefli þeirra sem uppljóstrað er um. Ég man ekki eftir dæmi um uppljóstrun þar sem þetta gerist ekki og er mjög áberandi. Sömuleiðis ef það er vitað hver uppljóstrarinn er er allt gert til þess að rægja þann uppljóstrara og gera honum upp illan hug. Það er gert að aðalatriði. Við sáum þetta í uppljóstrunum Edwards Snowdens, við sáum þetta í uppljóstrunum Samherja á Íslandi og við sáum þetta í ýmsum uppljóstrunum um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þar sem menn lögðu alveg gríðarlega áherslu á að vita hver uppljóstrarinn væri til að tryggja að allir vissu hvað þessi uppljóstrari sé hörmulega vond manneskja og hvað henni gangi til. Það er þetta sem vekur upp áhyggjurnar af því að setja skilyrði eins og að viðkomandi sé í góðri trú.

Eins og hér hefur verið nefnt var þetta rætt ítarlega á fundum nefndarinnar og nefndarálitið er vonandi nógu skýrt til að taka af allan vafa um að þarna sé ekki átt við að uppljóstrarinn þurfi að vera einhver voðalega göfug manneskja. Það má ekki vera eitthvert aðalatriði fyrir okkur. Aðalatriðið fyrir okkur er spurningin: Hvernig getum við stuðlað að því að þær upplýsingar sem þurfa að komast á yfirborðið komist þangað? Það er spurningin sem við þurfum að spyrja. Þá er afskaplega hvimleitt ef það er einhver vafi á túlkun eða matskennd atriði sem stjórna því hvort uppljóstrari nýtur verndar eða ekki. Sömuleiðis er mjög mikilvægt að einhver sem er að íhuga að uppljóstra eitthvað skilji réttarstöðu sína ansi skýrt vegna þess að mikið er í húfi, jafnvel allt. Uppljóstrarar leggja stundum líf sitt að veði, ekki bara í þeim skilningi að fólk andi heldur líf sitt í þeim skilningi að það á eigur, fjölskyldu og vini. Það á starf og hefur hagsmuni. Fólk getur misst það allt saman ef illa fer og um það eru mýmörg dæmi eins og flestir rannsóknarblaðamenn, a.m.k. erlendis, gætu sagt ykkur og eflaust einhverjir hér.

Það er því mjög mikilvægt að þetta hugtak sé skýrt. Ég vona að það sé nógu skýrt, ég ætla svolítið að gera ráð fyrir því. Hins vegar er mitt hlutverk hér að setja þessi lög þannig að ég sé sjálfur fullkomlega viss um þau og í hreinskilni sagt er ég það ekki. Það gleður mig samt að meiri hlutinn sé það.

Í nefndarálitinu er einnig nefnt að eitt af skilyrðunum sé að uppljóstrarinn telji það í samræmi við almannahag að uppljóstra. Mér er óljóst hvernig uppljóstrarinn eigi að meta þetta nákvæmlega í öllum kringumstæðum og sömuleiðis hvernig það allt saman er hugsað, nákvæmlega hvað í hverju tilfelli teljist almannahagur. Hvað ef þetta er uppljóstrari sem er að reyna að ná sér niðri á einhverjum, t.d. fyrrverandi vinnuveitanda? Þau sjónarmið komu alveg fram á fundum nefndarinnar að það væri ómálefnalegt og þá ætti það í raun og veru að vera þannig að slíkur uppljóstrari nyti ekki verndar. Það viðhorf er frekar algengt, bara vegna þess að fólk vill að annað fólk sé gott. Almennt gerum við þá kröfu á annað fólk að það sé ekki í hefndarhug, en þegar kemur að uppljóstrurum er oft hefndarhugur á bak við og það er ekki okkar hlutverk að dæma uppljóstrara út frá því hvort þetta eru góðar eða vondar manneskjur eða hvort þeim gangi gott til eða illt gagnvart fyrrverandi vinnuveitanda eða öðrum aðila sem er verið að uppljóstra um. Það er ekki hlutverk löggjafarinnar. Hlutverk hennar er að uppljóstrunin geti átt sér stað, þess vegna verndum við uppljóstrara, ekki vegna þess að það sé góð manneskja eða að henni gangi eitthvað sérstaklega gott til. Þannig lít ég a.m.k. á það og þess vegna er ég efins um skilyrði eins og það að uppljóstraranum þurfi að ganga þetta eða hitt til eða að það þurfi að vera einhver góð trú einhvers staðar eða eitthvert hlutlægt mat uppljóstrarans sjálfs sem stjórni því hvort hann njóti verndar eða ekki. Það er í eðli sínu matskennt og enn verra að það mat liggi svo sterkt hjá uppljóstraranum sjálfum. Það á bara að vera skýrt.

Það er í raun og veru sjálfstætt vandamál hversu auðvelt var að misskilja þetta frumvarp og hugtakið „góð trú“. Það er sjálfstætt vandamál vegna þess að það er ekki nóg að vel fari í réttarsal eftir þessa löggjöf. Það er ekki nógu gott. Það mun ekki ná markmiðunum sem við erum að reyna að ná. Hugsanlegir uppljóstrarar sjálfir þurfa að lesa lögin og helst án þess að þurfa að ráðfæra sig við lögfræðing. Það getur falist hætta í því. Hugsanlegir uppljóstrarar þurfa að geta áttað sig á réttarstöðu sinni og verið vissir um að þeir muni njóta verndar ef þeir kjósa að uppljóstra. Það er algjörlega fyrsta stigið. Það er ekki nóg að þetta sé í lagi með hæstaréttarfordæmi seinna meir. Þá ná lögin ekki því markmiði sem þeim er ætlað því að sú staða að uppljóstrarinn sé óviss um það hvort hann njóti verndar eða ekki hefur fælingarmátt og kælingaráhrif löngu áður en málið kemst til kasta dómstóla, fyrir utan að það er þá ólíklegra til að gerast yfir höfuð vegna þess að uppljóstrunin sjálf er ólíklegri til að gerast yfir höfuð.

Þá vil ég aðeins nefna sérstaklega eina umsögn frá hv. lögfræðingi sem hefur fengið nafn sitt borið fram í þessari pontu og ansi oft og það er Friðrik Árni Friðriksson Hirst. Hann sendi mjög áhugaverða umsögn þar sem hann mátaði frumvarpið við tilskipun sem hafði ekki verið tekin upp í EES-samninginn þegar hún var skrifuð 11. desember sl. Það er tilskipun sem var samþykkt í Evrópuþinginu og ráðinu 23. október 2019, er sem sé mjög nýleg, og fyrr eða síðar ratar hún inn í EES-samstarfið og þar af leiðandi hingað inn. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við samþykkjum hana. Það er ákveðinn munur á því hvernig viðfangsefnið er nálgast í þessu frumvarpi annars vegar og þeirri tilskipun hins vegar. Í fullkomnum heimi hefðum við gert þetta frumvarp í samræmi við þá tilskipun fyrir fram, bæði til að spara okkur tíma, til að þurfa ekki að gera það seinna sem við munum þurfa að gera hvort sem er, og sömuleiðis vegna þess að það er oft, eins og við hljótum að þekkja hér, jafnvel úr öllum flokkum, ágætisleiðsögn í vinnu Evrópusambandsins þegar kemur að tilskipunum og reglugerðum. Við fáum hér oft inn mál þaðan sem eru einfaldlega betur útpæld en við höfum mannskap og burði til, einfaldlega sökum fámennis. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þessu máli ljúki ekki með samþykkt þessa frumvarps heldur að þegar tilskipun Evrópusambandsins verði tekin upp EES-samninginn og kemur hingað inn þurfum við að gera nýtt frumvarp. Væntanlega breytum við þessum lögum en ég held að það þurfi svo sem ekkert að endurskrifa þau. Ég held að það hefði verið gott að tímasetningarnar hefðu passað þannig að við hefðum bara gert það frá upphafi.

Það er líka það að verði þetta frumvarp að lögum fer strax að myndast einhvers konar venja og fólk í samfélaginu, hugsanlegir uppljóstrarar og kannski aðilar sem hafa áhyggjur af því að einhverju verði uppljóstrað um þá, fer að miða við lögin eins og þau eru í dag. Þá getur verið ruglingslegt og valdið vandræðum að skipta seinna meir um nálgun nema þá að sú breyting sé þeim mun stærri, eins og t.d. þegar við settum ný lög um persónuvernd. Þá breyttist svo rosalega margt að aðilar áttuðu sig á því að þeir þurftu að endurskoða ýmislegt og kannski flest. Það var í sjálfu sér jákvætt eins erfitt og það var fyrir, held ég, allt samfélagið sem var að vísu jákvætt merki ef út í það er farið vegna þess að það er svo margt sem þurfti að laga og var lagað.

Þetta eru fyrirvararnir sem ég hef við þetta frumvarp. Ég sé mér ekki fært að standa í vegi fyrir því en ég er heldur ekki alveg á þeim stað að ég geti stutt það í heild sinni, held ég, ég sé til í 3. umr. Sömuleiðis finnst mér heldur ekki tilefni til að vísa þessu aftur til ríkisstjórnarinnar vegna þess að það veldur töfum fyrir utan að ég vil mun frekar þá stóla á að það verk verði gert alveg sérstaklega út frá EES-tilskipuninni, enda engin ástæða til annars í raun og veru nema þá að fara betur yfir málið. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur svo sem farið alveg nógu vel yfir málið í þeim skilningi. Þetta frumvarp var einfaldlega gert áður en þessi tilskipun varð til þannig að tímasetningarnar henta ekki alveg upp á það verklag að gera, skal ég fúslega viðurkenna. Mér finnst það samt leitt og hefði viljað hafa það öðruvísi.

Að þessu sögðu þykir mér mjög mikilvægt að alveg skýrt sé að það hvort hugsanlegur uppljóstrari beri einhvern hlýhug eða ekki til annars aðila sem hann uppljóstrar um skipti ekki máli. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt og ég vona að það hafi komið nógu skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans og ræðum hv. þingmanna hér. Markmiðið er að gera fólki kleift að uppljóstra um það sem þarf að uppljóstra. Það er markmið löggjafarinnar. Við erum ekki að setja löggjöf sem er einhvern veginn þannig að við viðurkennum óþægilegan sannleika eins og vímuefnanotkun eða eitthvað því um líkt og að við séum að búa til umgjörð til að hafa stjórn á því vandamáli. Frumvarpinu er ætlað að gera fólki kleift að uppljóstra. Það hlýtur að vera markmiðið og því ber að nálgast það þannig að mínu mati.

Ég vona að allar þessar áhyggjur mínar séu algjörlega innstæðulausar en þær eru til staðar og verða að lágmarki út daginn í dag. Við skulum sjá til hvernig verður með 3. umr., hvenær sem hún verður, og læt hér því staðar numið. Ég verð þó líka að segja að ég hlakka til að sjá útfærslu yfirvalda á því þegar væntanleg EES-tilskipunin verður innleidd og vona þá að þannig verði búið um að enginn vafi verði á neinum hugtökum sem varða þennan mikilvæga málaflokk.