150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[15:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég stóðst ekki freistinguna að leggja nokkur orð í belg í þessa umræðu, segi ég og strýk á mér belginn, því að hún er býsna áhugaverð og snertir á ansi mikilvægum hlutum og mér finnst mjög gott að umræðan hafi farið fram og dregnar fram þessar pælingar núna í 2. umr. Við ræddum þetta mál í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Umsögn okkar sá ég ekki að fylgdi nefndaráliti, þó að minnst sé á hana sem hluta af þeim gestum sem komu að málinu, umsögn sem við sendum hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Við komum einmitt inn á einhver þau atriði sem hér hafa verið nefnd.

Ég hef spurt sjálfan mig ýmissa þeirra spurninga sem t.d. hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur gert og komist að sömu niðurstöðu og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson fór hér yfir varðandi t.d. hvað „í góðri trú“ þýðir, sem var nú ein besta plata Megasar í mínum huga áður en við fórum að vinna að þessu máli, en núna skiptir orðið máli hvað það þýðir.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom áðan inn á ábyrgð fjölmiðla og hlutverk þeirra til að meta hvað eigi erindi til almennings — og vissulega. Sjálfur hef ég tekið á móti upplýsingum sem lekið hefur verið. Ég hef gert það sem blaðamaður í brúnu umslagi á bílastæði. Því hefur verið laumað í vasa minn á bar, hefur verið sent úr dulkóðuðum netföngum o.s.frv. Þær hafa verið sannar og lognar, að mínu mati að sjálfsögðu. Ég hef skrifað upp úr þeim fréttir og ekki. En í dag eru fjölmiðlar ekki eina leiðin og fráleitt eina leiðin til að koma því á framfæri við almenning sem fólk telur þörf á. Hver og einn getur farið mýmargar leiðir til þess.

Hér var rædd tilskipun Evrópusambandsins og við ræddum hana aðeins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd líka, fengum umræddan lögfræðing m.a. á okkar fund, og þar var lendingin í umsögn okkar þar sem þetta er tiltölulega nýsamþykkt eða tilskipun frá Evrópusambandinu sem á eftir að fara í gegnum allt það ferli sem við styðjum okkur við og höfum haft sem okkar hald og traust, t.d. þegar við höfum komið að málum eins og þriðja orkupakkanum hér í sölum Alþingis, að rétt væri að bíða þeirrar málsmeðferðar. Við vitum ekki hvernig málið mun líta út að lokinni umfjöllun í sameiginlegu EES-nefndinni en öllum þessum spurningum var líka velt upp í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hv. þingmaður kom inn á, af því að þetta eru sannar og réttar og góðar spurningar sem við þurfum öll að velta fyrir okkur. Ég vildi stinga því hér inn.

Ég skil frumvarpið eins og það er að hér sé verið í góðri trú að tala um að ekki sé vísvitandi verið að ljúga. Það er alltaf erfitt. Hvernig ætlarðu að sanna það, hvort sem þú ert blaðamaður að taka á móti umslagi á bílaplani eða uppljóstrari sem rekst á einhver gögn? En frumvarpið er framfaraskref, hluti af fjölmörgum slíkum sem verið er að stíga til að opna á aðgang að upplýsingum og tryggja vernd o.s.frv. Ég er ánægður með að þetta skref skuli vera stigið og ég er algerlega sannfærður um að þessi löggjöf mun þróast. Hér hefur verið nefnd tilskipun Evrópusambandsins, en almennt séð óháð henni mun þessi löggjöf þróast. Þannig að ég lít á þetta sem fyrsta skref.