150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi og verð að taka undir orð hans. Ég fagna því að ríkisstjórnin vilji fjárfesta í innviðum. Það veitir ekki af, löngu tímabært víða um land og við eigum að sjálfsögðu að bretta upp ermar hvað það varðar, ekki síst núna. Ég tek líka undir að það er heldur betur mjög mikilvægt að fjölga hér störfum, ekki síst núna, þannig að þetta er allt saman gott og brýnt.

Ég er með eina spurningu er varðar þá aðila sem koma að þessum framkvæmdum. Kemur til álita af hálfu hæstv. ráðherra að gera það að skilyrði að ekki sé um hagnaðardrifið fyrirtæki eða félag að ræða þegar hann fer í framkvæmdirnar? Að fyrirtækið eða félagið sem samið er við sé óhagnaðardrifið, eins og við höfum oft barist fyrir í Samfylkingunni þegar kemur að leigufélögum? Við erum jú að reyna að stuðla að jöfnuði á Íslandi og við vitum að veggjöld af þessu tagi bitna harðast á þeim sem hafa lægstu tekjurnar og lægstu innkomuna. Af því að veggjöld eru lögð á fólk óháð efnahag, getum við þá a.m.k. ætlast til að ríkisstjórnin tryggi að ekki sé verið að græða á framkvæmdum eins og þessum?