150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þarna kom skýrt fram að ef einkaaðili lendir í einhverjum vanda, ef framkvæmdin verður dýrari en ella, ef eitthvað bjátar á, muni ríkið hlaupa undir bagga. Auðvitað er ekki mikil áhætta fólgin í því fyrir einkaaðila að fara í opinbera framkvæmd sem er svo kirfilega tryggð með belti og axlaböndum af hálfu ríkisins og skattgreiðenda og þess vegna ítreka ég mikilvægi þess að ríkið stígi nú fram og standi með íbúum landsins og tryggi að ekki verði gengið til samninga við þá sem ætla að fara í slíka framkvæmd og maka krókinn á því. Ég held að við hljótum að skilja hvað það skiptir miklu máli við svona framkvæmd að það sé ekki gert í (Forseti hringir.) þeim tilgangi að hagnast mjög á þessum framkvæmdum sem geta í rauninni aldrei (Forseti hringir.) glatast. Við erum að tala um (Forseti hringir.) samgöngur, við erum að tala um vegakerfi o.s.frv.