150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt dálítið áhugavert, að þessi brýna framkvæmd fer neðar á listann af því að hún er svo dýr. Það er út af fyrir sig í rauninni mjög undarlegt því að þegar við hérna á þinginu — við erum samkvæmt stjórnarskrá að vinna samkvæmt sannfæringu okkar — fáum einmitt forgangsröðunarlista um öryggi, hagkvæmni og ýmislegt svoleiðis til að vega og meta okkar sjónarmið um það hvernig forgangsröðun við ætlum að stimpla og segja: Þetta er samkvæmt minni sannfæringu rétt að gera, óháð kostnaði til að byrja með, þá fáum við ekki svoleiðis forgangsröðun. Við fáum hana eftir á þegar búið er að taka tillit til jafnvel kostnaðar sem við myndum kannski setja í annað sæti þegar fjármálaráðherra gerir það ekki. Fjármálaráðherra setur kannski fjárhagslegu skuldbindingarnar þar á bak við ofar á lista. Þar af leiðandi hríðfellur þessi mikilvæga framkvæmd niður.

Það er dálítið á þessum nótum sem ég hef ýmsar ábendingar um vinnslu við samgönguáætlun almennt séð, líka við fjármálaáætlun og fjárlög, hvernig þau eru unnin og forgangsröðun þar á milli og í rauninni bara þær framkvæmdir sem eru á þessum lista varðandi brúna yfir Ölfusá líka og þess háttar. Hvar er þetta í þeirri forgangsröðun, óháð kostnaði upp á umferðaröryggi, hagkvæmni, arðsemi, umhverfissjónarmið o.s.frv.? Hvar er sá listi til þess að láta okkur þingmenn fá til að segja: Þetta eru mikilvægustu framkvæmdirnar óháð kostnaði. Það er síðan að sjálfsögðu okkar að vega og meta hvar við setjum kostnað inn í reikningsdæmið. En afleiðingin er sú að í rúmlega fjóra áratugi hefur þessi framkvæmd (Forseti hringir.) ekki komist í gagnið út af kostnaði.