150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er ánægður með að við getum loksins rætt þetta mál hér. Reyndar verð ég að segja að ég er örlítið hissa á að sjá hve fáir hafa verið í salnum undir þessari umræðu. Ég gat ekki skilið það öðruvísi (Gripið fram í.) síðast þegar við ræddum málið en að það hamlaði okkur að ræða það að 20 manna hámark væri í samkomubanni. Hér erum við hvað, fjögur, fimm og höfum aldrei verið fleiri en 12 inni í sal undir þessari umræðu, ég hef talið það sérstaklega.

En það er gott að við erum farin að ræða málið því að þetta er einn biti í það púsl sem samgöngumálin eru öll hér á landi á, eins og skáldið kvað. Við erum að vinna að samgönguáætlun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, við tökum á eftir góðu heilli til umræðu mál um stofnun félags um borgarlínu og svo er það þetta mál því að allt er þetta ein stór heild og það sem meira er, það er líka hluti af þeirri heild hvernig við horfum á gjaldtöku í umferðinni almennt og ríkisstjórnin er að skoða ýmsa hluti hvað það varðar. Hér er verið að horfa á, eins og margoft hefur komið fram — ég er ekki viss um að nokkurn hafi órað fyrir því þegar hugmyndir um Hvalfjarðargöng komu upp á sínum tíma að Hvalfjarðargangamódelið yrði orð sem yrði notað jafn oft í umræðu og hér hefur verið í dag. En það er akkúrat það sem við erum að ræða og hefur verið komið inn á og ég ætla líka aðeins að koma inn á.

Það er mikilvægt að halda því til haga hvernig hugmyndin er með þær framkvæmdir sem hér eru teknar fyrir sérstaklega. En ég kom, forseti, inn á heildarmyndina og bitana í púslinu, þeir eru ótal margir. Hluti af þeim er höfuðborgarsáttmálinn sem ég tel að séu ein bestu tíðindi úr stjórnmálum á yfirstandandi kjörtímabili, að sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, og ríkið, með öllum þeim flokkum sem skipa meiri hluta í hverju sveitarfélagi um sig eða í Stjórnarráðinu, hafi náð saman um þetta framfaraskref. Það er hluti af heildarmyndinni. Gjaldtaka í umferð er eitt af stóru verkefnum okkar á næstu árum því að við höfum það yfirlýsta markmið að útrýma þeim tekjustofni sem eru einhvers konar fastar tekjur og ég átta mig á að það eru skilgreiningar sem hægt er að agnúast út í en er fasti tekjustofninn sem á að standa undir umferðinni. Við höfum það yfirlýsta markmið að útrýma honum, það verði ekki bensín- eða olíugjald. Þess vegna þarf að huga að því hvernig við fjármögnum umferðina almennt séð og það er líka verið að vinna að því.

Hér er einn bitinn í púslið. Hér er verið að horfa á einstaka framkvæmdir, sumar þeirra eru hluti af annarri heildarmynd. Talað hefur verið um Sundabraut af mörgum og ég hvet hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur forseta til að leggja ekki fram tillögu, sem boðað var í ræðu á undan mér, um þá umdeildu framkvæmd sem hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir og Björn Leví Gunnarsson áttu orðastað um hér áðan. Búið er að búa þannig um hnútana í höfuðborgarsáttmálanum að ég sé ekki hví í ósköpunum ætti að vera að æra óstöðugan þó að slíkt samkomulag hafi náðst með því að fara að hræra í þeim potti aftur því að auðvitað eru allar þær framkvæmdir sem hér eru — þetta er heimild til framkvæmda. Auðvitað eru hér skipulagsmál sem eiga eftir að fara í umhverfismat sem ég átti orðastað um við hv. þm. Andrés Inga Jónsson fyrr í umræðunni.

Það hefur ýmislegt verið sagt í umræðunni um þetta frumvarp. Þetta á ekki að koma neinum á óvart. Listinn yfir allar þessar framkvæmdir var hluti af því kynningarefni sem má finna á vef samgönguráðuneytisins frá því höfuðborgarsamningurinn var kynntur, sem var í fyrra, þar sem beinlínis er talað um þessar sex framkvæmdir.

Veggjöld eru alls konar. Einfalda leiðin til að gagnrýna frumvarpið er að segja að enn einu sinni eigi að auka álögur á fólk og verið að gefast upp á sameiginlegri fjármögnun. Það væri ekki rétt gagnrýni því að veggjöld eru eitt og veggjöld eru annað. Það eru til veggjöld sem eru flýti- og umferðargjöld, eins og talað er um í höfuðborgarsamningnum, sem eiga beinlínis að liðka fyrir umferð. Síðan eru til hreinræktuð græn veggjöld sem eiga að hafa það yfirlýsta markmið að draga úr umferð, að færri nýti sér umferðarmannvirkin sem þarf að borga fyrir að nýta. Svo eru til framkvæmdaveggjöld. Það eru þau sem er verið að horfa til þar sem framkvæmdaveggjöldin eða veggjöldin eigi að standa undir hluta af framkvæmdinni eins og hér er búið um. Ég bið okkur öll, sem taka þátt í þeirri mikilvægu umræðu um framtíðarfyrirkomulag umferðarmála og gjaldtöku í þeim, að tala um það af ábyrgð og horfa til þess að margar ólíkar leiðir eru í því.

Eins og ég nefndi áðan, forseti, er verið að veita í raun heimild til að skoða og stofna félag um hverja þessa framkvæmd. Það er að sjálfsögðu að því gefnu að hver og ein framkvæmd uppfylli öll þau skilyrði sem þarf að uppfylla um framkvæmdir af þessu tagi, innra skipulag o.s.frv. Það kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. eru taldar upp í sex stafliðum þær framkvæmdir sem heimilt er að bjóða út með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.“

Mikilvægt er eins og ég nefndi áðan, forseti, að horfa til þess hvers lags gjaldtöku er verið að hugsa um. Mikilvægt er hvaða skilyrði eru fyrir henni, hvaða hömlur henni eru settar. Hæstv. ráðherra fór vel yfir það í framsögu sinni. Það verður ekki gjaldtaka fyrr en framkvæmdum er lokið. Það verður val á annarri leið, fólk sér sér annaðhvort hag í að nýta nýju framkvæmdina og borga fyrir eða fara þá gömlu, hámark sett á gjaldtöku í 30 ár og það mikilvægasta í mínum augum er að ríkið eignast síðan framkvæmdina og öll mannvirki ásamt öllu tilheyrandi verði eign ríkisins án sérstaks endurgjalds. Þetta er að mínu viti gríðarlega mikilvægur hluti af frumvarpinu.

Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur, eins og ég kom inn á áðan, verið að vinna að samgönguáætlun almennt. Þetta er biti í það stóra púsl líka ásamt því frumvarpi sem kemur hér á eftir. Án þess að ég ætli að verða dramatískari en þörf er á, forseti, ætla ég að leyfa mér að segja að við, bæði fulltrúar í þeirri nefnd og svo allir þingmenn í þessum sal, stöndum núna frammi fyrir nýrri hugsun þegar kemur að umferð. Við stöndum frammi fyrir því verkefni að endurhugsa umferð á Íslandi. Þetta er hluti af því. Þau mál sem ég hef farið yfir eru það einnig og ég vona og treysti að okkur takist sem fyrst að gera þau mál sem fyrir þingi eru, bæði hér í dag og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd nú þegar, að lögum til að hægt verði að fara að vinna eftir þeim.