150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef í niðurstöðu starfshópsins felast góðar útskýringar á því af hverju kílómetragjaldið sé óhentugt og eitthvað annað sé betra er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að skipta um skoðun. En ég hef búið í löndum þar sem er vegtolladót og svoleiðis og eftir yfirlegu og samanburð er ég á þessari skoðun eins og er. En ný gögn geta alltaf breytt hugmynd manns um hvað er satt og rétt.

Varðandi forgangsröðunina, eins og hv. þingmaður les upp, eru þetta einfaldlega framkvæmdir sem varða öryggismál. Brúin fram hjá Selfossi er gott dæmi um það og kannski Sundabraut fram hjá Mosfellsbæ, það væri líka mjög áhugavert. Þess vegna spyr ég: Eru þessar framkvæmdir í raun ekki það mikilvægar að þær ættu að vera það ofarlega á forgangslista að þær væru hluti af samgönguáætlun sem slíkri? Þeim er forgangsraðað neðar og fara út úr því fjármagni sem þegar er búið að greiða til mikilvægustu framkvæmdanna hvað varðar umferðaröryggi sem fólk leggur til með bensíngjöldum og sameiginlegum sköttum o.s.frv. Það er auðvelt að rukka gjald fyrir að fara yfir brú, það er auðvelt að rukka fyrir veg yfir Öxi ef fara á þá leið, það er ekkert mikið annað í boði nema snúa við og fara hringinn. Þetta eru framkvæmdir sem henta vel, ef við orðum það þannig, fyrir þetta fjármögnunarmódel. Ég er alltaf að reyna að komast að því hvernig forgangsröðunarlistinn var áður en ákveðið var að hnika þessu til fram og til baka eftir því hvernig fjármögnunarmódelið hentaði fyrir hverja vegaframkvæmd fyrir sig, því að það breytir tvímælalaust miklu fyrir fólk á svæðinu, varðandi greiðslur á sköttum og gjöldum, þegar eitt samfélag fær svona framkvæmd en ekki næsta.