150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður benti einmitt á að það væri stundum vafaatriðið hversu dýrt ýmislegt væri. Varðandi Vaðlaheiðargöng lá það mjög lengi ekki fyrir hvað gjaldið myndi verða í þær framkvæmdir. Ég hef alla vega áhyggjur af því að sumar af þessum framkvæmdum gætu alveg verið svona Vaðlaheiðarframkvæmdir á meðan aðrar eru tvímælalaust Hvalfjarðarframkvæmdir, eins og t.d. tvöföldun Hvalfjarðarganganna. Það eru því kostir og gallar í þeim framkvæmdum sem eru hérna.

En ég hef áfram þær spurningar um hvar þær eru í raun og veru í forgangsröðuninni með tilliti til samgönguáætlunar og þegar ég hugsa um málið í því ljósi, út frá sjónarhorni samgönguáætlunar, þá eru þessar framkvæmdir einhvers staðar í forgangsröðun þegar allt kemur til alls. Og spurningin sem við verðum að spyrja okkur er um þau gjöld sem við innheimtum til að fjármagna samgönguáætlun með bensíngjöldum og ýmsu svoleiðis, og náttúrlega bara með almennum sköttum, af því að við fjármögnum meira en næst í gegnum það sem var áður markaðar tekjur. En við þurfum að spyrja okkur, því að við viljum einmitt fjármagna meira en það umfang sem þessar mörkuðu tekjur náðu til, með hvaða hætti við gerum það. Gerum við það með veggjaldi? Og með hvaða rökum hífum við þá ákveðnar framkvæmdir ofar í forgangsröð áætlunarinnar sem er ekki þegar búið að borga í rauninni fyrir með uppsöfnun skatta á næstu árum? Eða erum við að hækka aðrar álögur? Erum við að hækka bensíngjaldið eða erum við að taka lán sem við greiðum fyrir með arðsemi af þeirri framkvæmd sem verið er að leggja? Eða fækkum við framkvæmdum, einkum af þjónustu? Þetta eru spurningar sem maður hefur þegar maður sér svona tillögu, út frá hvaða forsendum er verið að velja einmitt þessar framkvæmdir með tilliti til að þær passi inn í veggjöld. Mér finnst það áhugavert en það hefur ekki náðst útskýring á því og (Forseti hringir.) mér fannst hv. þingmaður fara einmitt vel inn á það.

Spurningin er: (Forseti hringir.) Hversu dýrt er það? Margar ósvaraðar spurningar liggja fyrir (Forseti hringir.) áður en við afgreiðum þetta mál.