150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Pælum aðeins í þeim valmöguleika sem við höfum, ef við hugsum bara um samgönguáætlunina sem slíka og síðan veggjaldaframkvæmdir. Veggjöld á framkvæmdir gagnast öllum landsmönnum, samgönguframkvæmdir gagnast öllum landsmönnum þó að stundum nýti þeir sumar minna en aðrar, það fer eftir búsetu, en alls staðar í kringum landið er verið að fara í ýmiss konar betrumbætur á samgöngukerfinu. Þá hugsar maður sem svo: Ef á að setja einhverja innspýtingu í uppbyggingu samgönguframkvæmda, af hverju er þá ekki bara almenna gjaldið hækkað lítillega í stað þess að setja veggjald á eitt nærsamfélag? Það hefur alveg efnahagsleg áhrif á það samfélag þó að ábatinn skili sér að sjálfsögðu líka, líklega mest í því nærsamfélagi. En það sama á við um allar hinar framkvæmdirnar sem er verið að reyna að fara í úti um allt land. Það eru þrjár hérna yfir Suðurlandið, ein á Vesturlandi og ein á Austurlandi og ein á höfuðborgarsvæðinu. Segja má að sú síðasta hafi verið á Norðurlandi, Vaðlaheiðargöngin, og það er hluti af þessu módeli. Ég kallaði eftir því í Vaðlaheiðarumræðunni þegar það var orðið frekar ljóst að þetta myndi detta yfir til ríkisins hvort eð er, hvort aðrir landshlutar myndu ekki vilja fá svipaðar framkvæmdir, því að það var í rauninni ríkisstyrkt framkvæmd, ekkert öðruvísi en í rauninni samgönguframkvæmd, sem hefði líklega verið einfaldara og ódýrara að borga með því bara að hækka bensíngjaldið pínulítið í stað þess að leggja veggjald á í þessi ákveðnu mörg ár.