150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[19:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Við fáum hér inn eitt mál enn frá ríkisstjórninni sem er varðað góðum fyrirheitum en lítt unnið eins og mörg þau mál sem við höfum fengið frá ríkisstjórninni undanfarandi en Alþingi hefur náð að laga þó nokkuð til í þinglegri meðferð. Það væri út af fyrir sig hægt að hafa mörg orð um málið sem slíkt, hvers vegna það kemur fram í þessari mynd o.s.frv. en ég ætla að geyma mér þá umræðu.

Það er aftur á móti þannig að ef við förum yfir það sem þetta mál er ekki, þá er þetta mál náttúrlega ekki Covid-mál og það verða ekki til nokkur þúsund störf vegna þessa máls í nánustu framtíð. Að minnsta kosti þrjú af þeim sex verkefnum sem hér eru tilgreind eru nánast á hugmyndastigi og verða ekki að veruleika fyrr en eftir hugsanlega áratug eða hálfan áratug eða eitthvað slíkt. Þannig að, eins og ég segi, málið er varðað góðri hugsun eða þannig en lítt unnið.

Ég spyr mig líka út í forgangsröðunina sem hér er, sérstaklega vegna tvöföldunar Hvalfjarðarganga. Ég furða mig mjög á því að sú hugmynd skuli vera komin hér inn vegna þess að það er ekkert sem kallar á hana. Það hefur orðið eitt slys í göngunum til þessa, svona alvarlegt alla vega. Það slys hefði hins vegar getað orðið hvar sem er og hefur í sjálfu sér ekkert með það að gera að göngin eru ein akrein í hvora átt.

Það er kannski ein ástæða sérstaklega fyrir því að ég er kominn hér upp, vegna þess að við erum áður búnir að tala um það, Miðflokksmenn, að sú aðferð sem hér er greind er sú sísta að okkar mati til að fara í framkvæmdir með. Auðvitað væri fyrst og best að þær tekjur sem ríkið hefur af umferð færu meira í framkvæmdir en nú er, í öðru sæti væri það að taka lán til mjög langs tíma fyrir verkefnum af þessu tagi. En síðan detta menn ofan á þessa kúvendingu í afstöðu sinni til veggjalda. Við því er svo sem ekkert að segja, það er bara ein kúvendingin enn frá því árið 2017, þ.e. rétt fyrir kosningar.

En það er hins vegar annað mál sem rak mig í það að koma hér upp og það er sú umræða sem fór fram í þingsalnum fyrr í dag um Sundabraut. Ég verð að viðurkenna að það kom mér spánskt fyrir sjónir hversu aftarlega í forgangsröðinni Sundabraut virðist vera hjá þingmönnum höfuðborgarsvæðisins og ég verð að segja t.d. að ræða hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar var mér algerlega óskiljanleg. Ég skil satt að segja ekki rökstuðning eins og þann að borgarlína hafi meiri flutningsgetu en Sundabraut vegna þess að eins og þær hugmyndir sem ég hef hingað til séð um Sundabraut — það er langt á milli þessara framkvæmda og þær tengjast ekki og ég satt að segja skil ekki hvað þarna var um rætt. Það var líka talað um það í ræðu hans að það yrði dýrara í framtíðinni og erfiðara að ferðast um í Reykjavík ef Sundabraut yrði að veruleika. Þetta skil ég ekki heldur og ég verð að segja að ég er viss um að þeir sem sitja í 40 mínútur í bíl núna tvisvar á dag, annars vegar til að komast ofan úr uppsveitum Reykjavíkur að morgni og fara þangað aftur að kvöldi, skilja þetta ekki heldur.

Það er reyndar til ein lausn á þessum flæðisvanda sem er á umferð í Reykjavík til austurs og vesturs, mjög einföld aðgerð sem ég hef ámálgað í þessum ræðustól og víðar örfáum sinnum. Í fyrstu skiptin sem ég opnaði mig um þetta mál var náttúrlega horft á mig vorkunnaraugum, sem er allt í lagi. En hugmynd mín er einfaldlega sú, svo ég segi frá henni enn þá einu sinni, að það væri hægt að gera Hringbraut/Miklubraut að einstefnuakstursgötu frá Njarðargötu í vestri að Elliðaárbrekku í austri, sem sagt einstefnuakstursgötu til austurs. Þetta væri ódýr framkvæmd, það er hægt að framkvæma þetta eftir bara nokkrar vikur. Það þarf að snúa við nokkrum umferðarskiltum og taka niður einhver umferðarljós en að öðru leyti er þetta einföld aðgerð. Á sama hátt væri hægt að taka Sæbrautina frá sama upphafspunkti í austri, þ.e. frá Elliðaárbrekku og niður á Snorrabraut og gera að einstefnu til vesturs. Með þessu móti væru mest átta akreinar undir í hvora átt en minnst fjórar. Þetta myndi þýða það að almenningssamgöngur gætu átt sína akrein alveg fullherta alla leið. En eins og ég segi, þessari hugmynd hefur verið mjög fálega tekið. Annað sem er gott við hana er að hægt er að gera tilraun með hana, gera þetta í sex mánuði t.d. Ef þetta er algjört óráð þá kostar þetta ekki það mikið að það stúti fjárhag nokkurs.

En svo ég snúi mér aftur að Sundabrautinni og afstöðu þingmanna höfuðborgarinnar til hennar þá var ekki einn — sem ég heyrði alla vega, það kann að vera að ég hafi ekki heyrt allar ræður — sem minntist á hlutverk Sundabrautar sem öryggisatriðis á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. ef við þurfum að tæma vestanvert höfuðborgarsvæðið með stuttum fyrirvara og á skömmum tíma út af t.d. eldsumbrotum, jarðskjálftum eða einhverju slíku. Enginn, sem ég heyrði alla vega, minntist á þetta öryggisatriði, þetta öryggishlutverk sem Sundabrautin myndi vissulega hafa í slíku árferði.

Það er annað líka sem er algjörlega ljóst ef hún yrði að veruleika, þ.e. með þeirri legu sem maður hefur séð á myndum — það er reyndar búið að skemma og skerða verulega möguleikana á landtengingunni við Kleppsholtið eða Laugarnesið eða þar innra með fyrirhuguðum og þegar höfnum byggingarframkvæmdum á þessu svæði — við þurfum náttúrlega að gæta að því að skerða ekki notkunarmöguleika Sundahafnar. Það er t.d. víst að ef lágbrú yrði fyrir valinu, og væri of framarlega á Kleppstanganum, þá myndi hún skerða notkunargildi Sundahafnar. Það er eitthvað sem við megum ekki við. Af þessu öllu virtu er óvissan um þessa framkvæmd það mikil að það mun taka dágóðan tíma bara að ákveða leguna og ákveða hvort menn vilja fara í göng undir sundið eða hvort menn vilja fara í hábrú eða lágbrú. Þetta er langt því frá komið á eitthvert það stig að menn geti farið að ákveða það með einhverjum sæmilegum upplýsingum fyrir framan sig. Þannig að þetta mál er algerlega góðra gjalda vert en það á sér hins vegar endapunkt að mestu leyti það langt inni í framtíðinni að það er ekki eitt af þeim málum sem við getum tengt við Covid, klárlega ekki.

Að því sögðu vil ég endurtaka það að auðvitað myndi hugur okkar Miðflokksfólksins standa til þess að vegaframkvæmdir væru fjármagnaðar með þeim hætti sem ég lýsti áðan vegna þess að þessi málsmeðferð hér er náttúrlega bara ný skattheimta, ávísun á nýja skattheimtu sem er sett í karamellubréf og kölluð samvinnuverkefni. Veggjöld eru náttúrlega ekki annað en ný skattlagning á þegar mjög skattlagða einstaklinga, þá sem aka um á hefðbundnum ökutækjum. Rafbílum fer ekki það hratt fjölgandi að sú fjölgun ein og sér kalli á þetta nema ef það yrði þannig að rafbílum myndi fjölga verulega, hraðar heldur en við sjáum núna, þá skapast alla vega grundvöllur til þess að lækka þau gjöld sem eru á öðrum hefðbundnum ökutækjum og þá er ég að tala aðallega um eldsneytisgjöldin.

Það vill vera þannig að þegar eitthvað er lagt á umferð á Íslandi — eins og tímabundni kílóskatturinn sem var lagður á fyrir 25 árum síðan, ef ég man rétt, ég held að það séu alla vega 20 ár síðan hann var lagður á, tímabundinn skattur sem er innheimtur tvisvar á ári og byggist á þunga ökutækja — þá erum við oft að tala um eitthvað sem er ákveðið í fljótræði, eitthvað sem á að vera til bráðabirgða og heldur áfram, eitthvað sem er ekki hugsað til enda. Mér finnst þetta frumvarp bera nokkurn svip af því. Auðvitað vona ég að þetta mál þroskist í meðförum nefndar en það breytir ekki neinu um framkvæmdahraðann á þessum verkefnum eða neinu slíku, aldeilis ekki. Þetta vildi ég hafa sagt vegna þess að þegar við erum að forgangsraða — það er í sjálfu sér kannski skiljanlegt að menn skuli hafa heykst á því að koma Sundabrautinni áfram. Þetta er ekki orðið nema eitthvert 20 ára ferli. Mig minnir að það sé 1996 sem Kjalnesingar samþykktu sameiningu við Reykjavík vegna þess að þeim var lofað að Sundabraut kæmi innan fimm ára. Þetta hefur hvergi staðist en auðvitað skilur maður það þar sem eru brýn verkefni annars staðar.

Það er náttúrlega ekki vansalaust, herra forseti, að framkvæmdir sem eru brýnar, til þess fallnar að auka umferðaröryggi, dragist í tvo áratugi. Ég gæti nefnt Teigsskóg, ég gæti nefnt göng á Austurlandi, líka vegna þess að heimamenn eru kannski ekki alveg sammála um það hvernig þau eigi að liggja, því miður. Við gætum tínt fram fleiri dæmi sem svona er um búið. Það er eins og ég segi ekki vansalaust að þetta ferli skuli taka svona langan tíma. Endalaus kæruferli. Nú hélt maður í einfeldni sinni að sá tími væri kominn að það væri hægt að fara með framkvæmdir af stað um Teigsskóg. Þá eru komnar fram tvær kærur enn og maður hugsar með sér: Hvenær er nóg nóg? Er ekki kominn tími til fyrir löngu að leggja lagafrumvarp fram um veginn um Teigsskóg í eitt skipti fyrir öll? Allt sem ég hef þegar tilgreint í þessu er að þetta eru ágætisfyrirheit sem hér eru en þau verða ekki að veruleika á þeim tíma sem hugsanlega er boðað. Þau munu ekki hafa þau áhrif á atvinnumarkað sem er boðað, en að öðru leyti eru fyrirheitin ágæt. Forgangsröðunin er röng en eflaust lagast þetta verulega, herra forseti, í meðförum nefndarinnar.