150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[19:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að skipta mér sérstaklega af söguskýringum þegar fjallað var um dagskrá þingsins þegar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom í ræðu, en fyrst ráðherra tók það upp líka er kannski ágætt að bregðast aðeins við því. Þar vorum við í því ástandi að við áttum að halda samskiptum og í rauninni fundum sem stystum og í lágmarki og löng umræða um mál eins og þetta var einfaldlega óviðeigandi á þeim tíma. Málið snerist alltaf um það samtal og þann skort á því samtali við forseta þar sem hann sett málið einfaldlega á dagskrá óháð allri annarri umræðu, ekki um 20 manna hámarkið eða neitt svoleiðis sem gæti vel hafa átt við en það átti við í nákvæmlega þeirri umræðu þar sem verið var að gagnrýnina undir fundarstjórn forseta, ekki um þetta mál.

Það sem ég gagnrýndi í umræðunum var grunnforgangsröðun áður en þingið fær samgönguáætlun. Á hvaða forgangsröðun byggir samgönguáætlunin frá ráðuneytinu? Við fáum hana aldrei. Það er það sem ég hef verið að spyrja landshlutasamtökin og sveitarfélögin um, forgangsröðun þeirra. Hvaða forgangsröðun leggja þau til í púkkið um samgönguáætlunina? Þau kunna á veghlutana sem Vegagerðin veit greinilega ekki hverjir eru, tegundirnar sem eru í hverju nærsamfélagi, það þekkir fólkið í landshlutanum, í sveitarfélögunum. Vegagerðin þekkir það greinilega ekki miðað við svar hæstv. ráðherra sem ég fékk fyrir stuttu síðan.

Það er rosalega margt sem er athugavert við þetta og það er ekki hægt að segja að það þingið hafi samþykkt þessi verkefni í samgönguáætlun séu rök fyrir fyrir þessu frumvarpi, að setja verkefnin í það, því að þá vantar grunnforsendurnar, grunnástæðuna fyrir því að þau komu þangað á annað borð.