150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[20:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekki að blanda mér í það sem gerðist. Ég benti á hið augljósa, að sú umræða gat farið fram í dag og það kom aldrei til neinna vandræða og hún hefði þess vegna líka getað farið fram um daginn. En aðalatriðið, sem ég kom kannski ekki nægilega inn á og hv. þingmaður svaraði ekki í ræðu, er forgangsröðunin. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn hefur gleymt því eða hoppað yfir það að við höfum eitthvað sem heitir samgönguráð. Það undirbýr samgönguáætlun og vinnuna í ráðuneytinu. Þar sitja vegamálastjóri, forstjóri Isavia og forstjóri Samgöngustofu. Þar eru haldnir fundir með öllum landshlutasamtökum, með flestum sveitarfélögum. Haldnir eru látlausir fundir um allt land með öllum öðrum hagaðilum til þess að sortera. Vegagerðin með sína sérfræðinga kemur inn með gögn um forgangsröðun út frá arðsemi, út frá byggðarlegum sjónarmiðum, út frá mikilvægi þess og þeim markmiðum sem samgönguáætlunin hefur haft í að tengja saman byggðarkjarna með að lágmarki 100 íbúa og setja malbik á slíka vegi o.s.frv. Það eru nokkur meginmarkmið sem unnið er að. Allt það ferli á sér stað áður en gerð er tillaga um samgönguáætlun til ráðherra sem síðan fer yfir hana í ráðuneytinu og leggur fyrir þingið. Það er búið að fara í gegnum allt þetta ferli og sérstaklega að eiga samtal, sem ég legg áherslu á, við sveitarfélögin, við landshlutasamtökin, við alla aðra hagaðila í landinu.