150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[20:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um daginn voru aðrar samkomutakmarkanir en eru í dag. Svo einfalt er það svar. Þrátt fyrir allt þetta samráð koma sveitarfélögin á fund umhverfis- og samgöngunefndar og segja að þau hafi verið með öðruvísi forgangsröðun en birtist síðan í samgönguáætlun. Þegar við spyrjum af hverju, biðjum ráðuneytið um útskýringar, þá fáum við engin svör, þrátt fyrir allt þetta samráð. Það er það sem ég er að kvarta undan, að við fáum ekki þau gögn. Þjóðin fær ekki þau gögn fyrir framlagningu málsins. Þetta er samráðsferlið. Þetta er forgangsröðun samráðsferlisins. Kannski er henni breytt af ráðuneytinu eða af pólitískum ástæðum, sem er þá einhver ástæða, eða þá að það er útskýrt af hverju forgangsröðun sem landshluti eða sveitarfélag kallar eftir nær ekki í gegn eftir þetta samráð. Þá útskýringu vantar. Það er það sem ég kalla eftir.