150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[20:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég að herma eftir hæstv. ráðherra og segjast ekki ætla að skipta mér af en gera það samt og tala um samkomutakmarkanirnar sem voru í gildi hér þegar ræða átti þetta mál. Ég verð að viðurkenna að mér finnast þessar aðdróttanir, bæði frá hæstv. ráðherra og hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, frekar ósmekklegar, að það hefði alveg verið hægt að ræða málið þarna um daginn og að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi meira að segja verið svo duglegur að telja fólk hér í þessum sal, hafi haft fyrir því í dag til þess að hafa rétt fyrir sér. Ég veit ekki hvort hann tekur hliðarsali með í reikninginn, sem er búið að bæta við eftir þetta, eða hvort hann hafi meðvitund um að umdeild mál eiga ekki heima í þingsal þegar þess er vænst af okkur að halda okkur fjarri. Þó er keppst um, eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi tekið eftir þegar hann hélt flutningsræðu sína hér, að fá að fara í andsvör við ráðherrann. Þau eru takmörkuð auðlind. Það voru fjögur andsvör, ef ég man rétt, við hæstv. ráðherra fyrr í þessari umræðu, hún er búin að standa yfir í talsverðan tíma. Mér tókst að telja tólf þingmenn sem tóku þátt í þessari umræðu, sem ég tel bara nokkuð gott, og fjölmörg andsvör líka. Þetta allt hefði bara verið töluvert óþægilegra, töluvert óaðgengilegra, ef hér væru enn allir stólar í salnum og hér ríkti enn sama ringulreið og þá um hvernig skyldi haga störfum þingsins miðað við þessar aðgangstakmarkanir.

Mig langar bara að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki til í að endurskoða þetta aðeins, að nefna þetta svona í einhverjum hálfkæringi og láta eins og það sé okkur að kenna að málið hafi ekki farið á dagskrá fyrr vegna þess að við höfum verið ósátt við samgöngutakmarkanir. Er ekki bara rétt að fagna því að nú sé hægt að hafa eðlilegt þinghald og hægt að ræða málin af fullum þunga og vera ekkert að standa í einhverjum hausatalningum hér?