150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[20:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög glaður yfir því að þingið sé komið í sinn vanalega gang og er bara stoltur af því sem áorkast hefur í landinu í baráttunni við heilbrigðisvána. Þess vegna er gott að þinghald sé komið í sinn vanagang. Ég benti bara á hið augljósa, að þetta hefði líka getað gengið um daginn en ég ætla ekki að erfa það við nokkurn mann. Mér fannst umræðan í dag vera fín, ég heyrði ekki mikla mótstöðu við málið þótt uppi væru alls konar vangaveltur. Ég treysti því bara að nefndin fjalli um þetta með ábyggilegum hætti og málið komist á meiri rekspöl vegna þess að það skiptir máli. Ég var að rökstyðja það, út frá viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í fjárfestingarátaki, að það væri mikilvægt að þessi samvinnuverkefni væru eitt af verkfærunum sem við gætum beitt þar.