150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp fjallar um stofnun hlutafélagsins eða heimild til stofnunar þess. Þarna er verið að rekja það í hvaða tilgangi megi stofna slíkt félag og hvaða hlutverki það hafi að gegna og rakin eru flýti- eða umferðargjöld sem einn mögulegur tekjustofn fyrir félagið og ég tel að það nægi á þessum tímapunkti vegna þess að það er auðvitað risastórt útfærsluatriði með hvaða hætti Alþingi kynni að ákveða að heimila slíka gjaldtöku. Við vitum að það er eitt af þeim atriðum sem hafa verið umdeild einmitt í þessu tiltekna máli. En af samningnum og frumvarpinu má vera ljóst að það er hægt að fjármagna risaframkvæmdir á borð við þessar með ýmsum hætti. Ég hef sagt t.d. í því samhengi að ekki sé sjálfgefið að álögur á umferð þurfi að vaxa, þegar á heildina er tekið, í landinu við það að slíkum gjöldum sé komið á og þá vísa ég sérstaklega til þess að við erum að endurskoða álögur á eldsneyti og bifreiðar. En það er ekki hægt að lesa það út úr málinu eins og það liggur fyrir þinginu að fallið hafi verið frá flýtigjöldunum heldur einmitt eins og hv. þm. nefndi, að það muni þá þurfa að koma fram í sérstöku frumvarpi sem Alþingi taki til sjálfstæðrar meðferðar.