150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við ræðum hér afgangsmál á dagskrá stóra delludagsins í gær, eins og ég kallaði hann, sem ekki náðist að fara yfir í gærkvöldi, sem betur fer má kannski segja, því hér kynnir hæstv. fjármálaráðherra gamlan draug sem nú er búið að klæða í kórónaföt eins og svo mörg mál, mál sem byggir á stórundarlegu samkomulagi, samgöngusáttmálanum, svokallaða eða -samningnum. Það er ekki alveg ljóst hvað á að kalla þetta. Það var víst viðkvæmt mál eftir að plaggið var undirritað, hvort mætti kalla það samning eða sáttmála.

Ég held að það sé mjög æskilegt og raunar mjög mikilvægt að borgarstjóri fá ekki fleiri fundi með hæstv. samgönguráðherra. Það kemur iðulega eitthvað agalegt út úr því eins og þessi samgöngusáttmáli, svo ekki sé minnst á samkomulag eða samning um Reykjavíkurflugvöll.

Mál þetta gengur út á að stofnað verði opinbert hlutafélag því það hefur nú reynst svo vel. Auðvitað getur verið tilefni til þess fyrir ríkið að stofna félag. Þá skiptir öllu máli hver tilgangur þess er og hvernig til þess er stofnað. Þetta félag er jú ætlað til innviðauppbyggingar en sérstaklega er tekið fram að það eigi að standa að álagningu nýrra gjalda — gat nú verið, herra forseti — svokallaðra flýti- og umferðargjalda. Flýtigjöldin voru reyndar áður kölluð tafagjöld en einhverjum auglýsingamönnum ríkisstjórnarinnar hefur líklega þótt það heiti of lýsandi fyrir þessi nýju gjöld sem bætast við langan lista af öðrum gjöldum sem ríkisstjórnin hefur fundið upp. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að að skerast í leikinn hér hjá hæstv. ráðherrum svoleiðis að maður hafi nú betra hljóð til að halda áfram umræðu um þetta stórvarasama mál.

Málið sem við ræðum hér nú rímar á vissan hátt við málið sem var til umræðu síðast á dagskránni þar sem gert er ráð fyrir nýjum veggjöldum á vegum landsins. Hér er gert ráð fyrir nýjum gjöldum fyrir það að ferðast innan höfuðborgarsvæðisins, tafagjöldum sem nú heita víst flýtigjöld. Þó er líklega best að útskýra þetta frumvarp og tilgang þess með því að benda á hið augljósa, að það snýst um að uppfylla kosningaloforð Dags B. Eggertssonar og Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Borgarstjóri fær að framkvæma hin furðulegustu stefnumál sín úr kosningabaráttunni, borgarlínuna og væntanlega Miklubraut í stokk og eitthvað álíka. Hvað fær ríkið í staðinn? Áður en kemur að því þarf ríkið að borga reikninginn. Ríkið ætlar að borga reikninginn fyrir kosningamál Samfylkingarinnar, borgarlínuna, en það sem út af stendur verður greitt af almenningi, eins og ég nefndi áðan, í formi nýuppfundinna gjalda, hvort sem menn vilja kalla þau tafagjöld eða flýtigjöld.

Þá vantar reyndar einn lið upp á því að ríkið ætlar, til að geta uppfyllt kosningaloforð Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að ráðast í fasteignabrask, stofna nýtt fasteignafélag til að þróa og selja Keldnalandið. En það vill nú svo til að þetta land hefur verið nefnt sem mjög vænlegur kostur fyrir framtíðaruppbyggingu Landspítalans og þó væri nóg pláss eftir fyrir aðra byggð. Annað landsvæði, Vífilsstaðir í Garðabæ, sem hafði verið skoðað í þessu samhengi og var raunar skilgreint sem framtíðaruppbyggingarland Landspítalans, var í skyndi selt, reyndar í tíð forvera hæstv. fjármálaráðherra, svoleiðis að menn gætu hætt að velta fyrir sér slíkum möguleikum þar. Nú á að leggja Keldnalandið inn í fasteignaþróunarfélag ríkisins svoleiðis að afraksturinn af því geti lagst í púkkið til að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. Eitt er reyndar nefnt í viðbót, hugsanleg sala Íslandsbanka og gott að sjá að ríkisstjórnin er jafn vel með á nótunum og fyrr.

Allt þetta frumvarp lætur ríkisstjórnina líta út eins og einhvers konar undirdeild á skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík. Og hvað fær ríkið fyrir allt saman? Það fær leyfi. Því verður leyft að ráðast í nokkrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem hefði átt að vera löngu búið að framkvæma, sem voru á áætlun flestar hverjar fyrir löngu síðan. En nú ætlar borgin og samstarfsmennirnir að leyfa ríkinu að framkvæma þetta ef það borgar framkvæmdirnar og borgarlínuna. Ég verð að viðurkenna það, herra forseti, að það var vel gert hjá hæstv. ráðherra áðan að viðurkenna að af hálfu sveitarfélaganna væri í sjálfu sér ekki mikið lagt til þessa máls. En ríkið ætlar að borga og fær fyrir vikið að ráðast í framkvæmdir sem hafa beðið. En er það virkilega raunin að á 15 árum eigi ekki að klára fleiri stór samgönguverkefni, nauðsynleg samgönguverkefni, þá tel ég að sjálfsögðu ekki með borgarlínu eða Miklubraut í stokk, en ráðgert er í þessum samgöngusamningi eða samgöngusáttmála? Er það svo að þegar hæstv. fjármálaráðherra verður orðinn 65 ára gamall verði ekki meira búið að gerast, ekki fleiri stór verkefni búin að klárast á höfuðborgarsvæðinu en lagt er upp með hér? En borgarlínan, það skal ráðist í hana og ríkið ætlar að borga.

Hvernig gerist svona lagað, herra forseti? Ég efast um að borgarstjóri hefði náð svona góðum samningum þó að í forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu hefði verið Samfylkingarfólk því að meginmarkmiðið með þessu plaggi sem við erum að ræða núna er að ráðast í borgarlínu á kostnað ríkisins og skattpíndra íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nú er kannski tímabært að velta því fyrir sér hvort hæstv. ráðherra veit hvað borgarlína er því við höfum rætt þetta áður og þá hefur hæstv. ráðherra svarað því til að það væri allt einhvern veginn í lausu lofti hvað væri átt við með borgarlínu en nú þegar þetta frumvarp er lagt fram veit hæstv. ráðherra væntanlega hvað borgarlína er og getur kannski útskýrt það fyrir okkur. Þó hefur legið fyrir alllengi að hvað sem þetta fyrirbæri væri þá væri það óhemjudýr framkvæmd og menn hafa bent á svipuð dæmi frá öðrum löndum um að svona framkvæmd sé dæmigert opinbert verkefni sem fari langt fram úr kostnaðaráætlun. Menn hafa t.d. nefnt Edinborg þar sem borgarlínan var töluvert minni eða styttri en hér er áformað. Hún fór margfalt fram úr kostnaðaráætlun, snerist, ef ég man rétt, fyrst og fremst um að tengja flugvöllinn við borgina. Engar áætlanir stóðust og trúir því einhver að áætlanir um borgarlínu, eins dýrar og þær eru, muni á endanum standast? Það væri áhugavert ef hæstv. fjármálaráðherra gæti fullvissað okkur um að þessar kostnaðaráætlanir gangi eftir.

Þetta er líka ætlað til að þrengja að umferð, við vitum það og höfum séð það í gögnum borgarinnar. Það er talinn sérstakur kostur við þessa framkvæmd að teknar verða tvær akreinar, ein í hvora átt, af helstu samgönguæðum borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins undir borgarlínu. Það þrengir að umferð en þá er útskýrt fyrir okkur að það sé bara betra. Þá sé kominn enn meiri hvati fyrir fólk til að taka strætó eða borgarlínu. Við vitum líka að þetta á að vera tvöfalt kerfi. Strætó verður rekinn áfram sem fer um hverfin og safnar fólki saman til að flytja það í borgarlínuna þannig að menn geta rétt ímyndað sér hvort kostnaðurinn muni minnka. Það er kannski stóra málið. Þetta verkefni mun fela í sér eilífðarkostnað, ekki bara hinn gríðarháa framkvæmdakostnað heldur kostnað til langrar framtíðar við að reka allt saman og þó er þetta rökstutt á svipaðan hátt og þegar vinstri stjórnin samdi á sínum tíma við borgina um að setja milljarð í Strætó gegn því að dregið yrði úr öðrum framkvæmdum, eins sérkennilega og það kann að hljóma. Það voru kynntar áætlanir um hvað þetta myndi auka notkun almenningssamgangna. Gekk það eftir? Ekki á nokkurn hátt. Notkun á strætó, þrátt fyrir þennan milljarðsstyrk ár eftir ár, jókst ekki neitt. Áhrifin urðu engin og nú er bætt um betur með því að ráðast í borgarlínu og væntanlega mun ríkið þá sitja uppi með hana til eilífðar.

Það sem verra er, þetta er líka gamaldags verkefni. Þetta er ekki verkefni sem er í samræmi við nútímann og nútímaþarfir eins og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn hefur útskýrt svo vel. Ef við værum í Austur-Berlín árið 1960 þá skildi maður kannski svona ráðagerð frá stjórnvöldum, ef menn pössuðu upp á að það væri a.m.k. fimm ára bið eftir Trabantinum. En miðað við stöðu mála hér á Íslandi nú er óskiljanlegt að ríkisstjórnin ætli að ráðast í þessa gjaldtöku af almenningi til að fjármagna svona verkefni. Þetta verkefni minnir mig reyndar á, talandi um Austur-Berlín, reynslusögu mína þaðan. Ég náði að heimsækja þá borg fyrir fall múrsins, skömmu áður, og kom þar á hótel og fékk súpu sem þurfti auðvitað að greiða fyrir með vesturþýskum mörkum en í súpunni voru steinselja, útskornar sítrónur, kjöttægjur og alls konar skraut. Súpan var hræðilega vond og fljótlega rann upp fyrir mér að súpan hefði verið samsett úr afgöngum af hátíðarkvöldverði, væntanlega einhverra flokksmanna kvöldið áður eða jafnvel nokkrum kvöldum áður. Þetta frumvarp minnir mig á þessa súpu sem ég borðaði í Austur-Berlín. Það er matreitt af hæstv. samgönguráðherra úr afgöngunum af kosningakræsingum Samfylkingarinnar og svo borið fram hér af hæstv. fjármálaráðherra.

Ef við lítum á þann kafla frumvarpsins sem fjallar um mat á áhrifum þess þá birtist kunnuglegur texti. Þetta er 6. kafli, um mat á áhrifum. Þar finnst mér ég kannast við nokkrar línur sem ég held að séu nánast orðrétt teknar upp úr útvarpsauglýsingum Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og allt á þetta að gerast með stofnun nýs opinbers hlutafélags. Það hlutafélag er þannig hannað að það er til þess fallið að auka á kerfisræði í landinu og skera enn frekar á lýðræðisleg áhrif kjörinna fulltrúa, kjósenda þar af leiðandi, og færa það í eitthvert óskilgreint fjarlægt apparat. Ég er með alllangan lista af tilvitnunum í frumvarpið og greinargerðina þar sem þetta kemur berlega í ljós en sé að tíminn er að klárast hjá mér svoleiðis að ég mun þurfa að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá. Þetta mál er lýsandi fyrir afleiðingar þess að við sitjum uppi með kerfisstjórn sem ræðst nú einnig í neyslustýringu, eins og kemur glögglega fram á bls. 6 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eitt af markmiðum sáttmálans er að stuðla að breyttum ferðavenjum.“

Þar höfum við það. Sjálfstæðisflokkurinn kynnir okkur frumvarp um það hvernig eigi að stuðla að hátterni, breyta hátterni fólks. En spurningin stendur eftir: Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur um hvað borgarlína er? Ég mun koma hér aftur í ræðu á eftir til að fara nánar yfir eðli þessa opinbera hlutafélags.