150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér fannst meiri hluti þessarar ræðu fara í umræðu um annað en þingmálið sjálft sem fjallar um heimild til að stofna félag. Hér var verið að velta upp spurningunni: Hvað er borgarlína? Síðan var því eiginlega svarað jafnóðum að það væri algerlega vonlaus hugmynd. En ég ætla bara aðeins að rifja upp nokkur meginmarkmið sem stjórnvöld höfðu með gerð þessa samkomulags. Það þurfti að grípa til aðgerða til að tryggja greiðari samgöngur, ekki satt? Hér hafa verið of miklir umferðarhnútar úti um alla borg og allt höfuðborgarsvæðið, samfelldir umferðarhnútar í raun og veru frá Kringlumýrarbraut og Miklubraut alveg suður fyrir Hafnarfjörð, suma morgna. Við viljum ná árangri í kolefnishlutleysi, verða kolefnishlutlaust samfélag í framtíðinni, og þessum sáttmála er ætlað að ná áföngum í því. Við viljum auka umferðaröryggi. Allar þær samgönguframkvæmdir sem hv. þingmaður nefndi að hafi lengi verið á teikniborðinu — það er einmitt vandamálið. Þær hafa bara verið á teikniborðinu. Þær eru loksins núna komnar hér á blað og fjármagnaðar til framkvæmda. Það er stórkostlegt umferðaröryggismál. Við erum að ná þeim áfanga með þessu, fyrir utan að tryggja trausta umgjörð með verkefninu, með þessu félagi.

Borgarlínan er auðvitað fyrst og fremst umferðarás um höfuðborgarsvæðið. Það þarf að fara í framkvæmdir til að skapa rými fyrir nýjan umferðarás. Svo hafa menn verið að takast á um það hvers konar ökutæki muni ferðast eftir þeim ási og ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að sumar hugmyndir hafa verið mjög draumkenndar og í mínum huga allt of kostnaðarsamar og óraunhæfar. Aðrar sem hafa fjallað um að þarna geti (Forseti hringir.) venjulegir strætisvagnar farið um eða jafnvel sjálfkeyrandi ökutæki í framtíðinni hafa í mínum huga verið miklu raunhæfari og ekki eins fjarstæðukenndar og þær sem hv. þingmaður vísar mest til og kennir við Samfylkinguna.

(Forseti (HHG): Forseta láðist að nefna það áðan að þar sem þrír hv. þingmenn eru í andsvörum er ræðutími styttur í eina mínútu í seinna sinn.)